
ÖBÍ réttindasamtök settu upp táknræna fátæktargildru við Alþingishúsið í Reykjavík í gær, á alþjóðlegum baráttudegi gegn fátækt, til þess að vekja athygli á stöðu þeirra þúsunda sem búa við fátækt á Íslandi. Gjörningurinn var gerður í samstarfi við Brandenburg.
Gildran vakti gríðarlega athygli, bæði á meðal vegfarenda og fjölmiðla. Fjallað var um gjörninginn í öllum helstu miðlum landsins og ljóst að stór hluti landsmanna varð var við hana.
Finna má myndband af uppsetningu gildrunnar hér að neðan:
Fátæktargildran verður höfð til sýnis í Smáralind um helgina, dagana 18. og 19. október, þar sem gestum býðst að skoða hana og kynnast stöðu fátækt fólks á Íslandi í dag.
Samkvæmt skýrslu sem Varða, rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, vann fyrir ÖBÍ réttindasamtök búa um 33% lífeyristaka við fátækt. Þessu viljum við breyta.
Það er ekki nóg að fjarlægja bara hina táknrænu fátæktargildru af Austurvelli. Það þarf líka að fjarlægja fátæktargildrurnar sem leynast í samfélaginu.
ÖBÍ réttindasamtök vilja samfélag þar sem engin festast í fátæktargildru.
• Tryggjum öryggi í húsnæðismálum og tökum á sífellt hærra húsnæðis- og leiguverði
• Veitum öllum aðgengi að gjaldfrjálsri grunnþjónustu
• Hækkum bæði lífeyri og lægstu laun svo öll geti lifað með reisn

