Skip to main content
AlmannatryggingarDómsmálFréttTR

Búsetuskerðing sérstakrar framfærslu uppbótar ólögleg.

By 1. október 2021október 16th, 2023No Comments
Landsréttur felldi dóm þann 1. október, þess efnis að sú háttsemi Tryggingastofnunar Ríkisins, að skerða greiðslur sérstakrar framfærslu uppbótar, í hlutfalli við búsetu erlendis, sé ólögleg, og andstæð 65. grein stjórnarskrárinnar, og einnig 76. grein hennar, sem tryggir rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverra lágmarks framfærslu.
Ágreiningur málsaðila laut að því hvort TR hefði verið heimilt á árabilinu 2011 til 2015 að lækka greiðslur sérstakrar framfærsluuppbótar til A samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, til samræmis við búsetu A hér á landi. Sú ákvörðun TR að A skyldi ekki njóta fullrar greiðslu var reist á heimild í 3. mgr. 15. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1052/2009, þar sem mælt var fyrir um að fjárhæð sérstakrar uppbótar skyldi greiðast í samræmi við búsetu hér á landi, sbr. 1. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.
 
Sérstök framfærslu uppbót er greidd samkvæmt lögum nr 99/2007, um félagslega aðstoð. Þar segir í annari málsgrein 9. greinar laganna að heimilt sé að „greiða [örorkulífeyrisþega sem fær greitt skv. 18. gr. laga um almannatryggingar og endurhæfingarlífeyrisþega sem fær greitt skv. 7. gr. laga þessara] 1) sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. ót“ Í greininni setur Alþingi svo viðmiðunarmörk um hvenær einstaklingur teljist ekki geta framfleytt sér. Í málinu var því deilt um heimild TR til að skerða þessa uppbót sem Alþingi hefur ákveðið, til að tryggja að allir geti framfleytt sér, og þá miðað við þessar fjárhæðir. 

 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ: „Það er rétt að minna á að hér erum við að tala um þá einstaklinga sem hafa hvað minnst milli handanna. Við erum að tala um þær fjárhæðir sem Alþingi ákvað að enginn ætti að hafa minna til að framfleyta sér. Og TR hefur í fjölda ára skert þær fjárhæðir á grundvelli þess að einstaklingur hafi ekki búið alla sína tíð á Íslandi. Hversu lágt getum við lagst? Sem betur fer hefur Landsréttur nú staðfest að hér er um mismunun að ræða.“ 

 

Öryrkjabandalagið hefur rekið þetta mál fyrir dómstólum frá árinu 2016, en það hófst í raun mun fyrr, þegar viðkomandi einstaklingur leitaði til bandalagsins. Upphaflega var skerðingin kærð til þáverandi úrskurðarnefndar um almannatryggingar, nú úrskurðarnefndar um velferðarmál, ásamt því að ráðherra málaflokksins var ritað opið bréf.
Í svari þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn um lágmarksframfærslu segir að með lögfestingu ákvæðis um sérstaka uppbót til framfærslu væri öllum lífeyrisþegum tryggð samkvæmt lögum ákveðin lágmarksfjárhæð til framfærslu á mánuði. Skv. frétt á heimasíðu TR, dags. 13.9.2012, var það gert sökum þess að það var „mat manna að bótaflokkar almannatryggingakerfisins nægðu ekki til framfærslu lífeyrisþega…“

 

 
Landsréttur segir í dómi sínum að í þágildandi 5. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 hefði verið að finna sérstaka heimild fyrir ráðherra til að setja reglugerð um nánari framkvæmd 9. gr. laganna. Þá hefði TR með ákvæðum 2. og 3. mgr. 9. gr. laganna verið sett skýr viðmið um það við hvaða tekjumörk ætti að miða greiðslur samkvæmt ákvæðinu auk þess sem ljóst væri að tilga ngur ákvæðis 2. mgr. 9. gr. væri að tryggja þeim sem ekki gætu framfleytt sér hér á landi lágmarksframfærslu. Þegar litið væri til þess og jafnframt haft í huga það meginskilyrði fyrir greiðslu bóta vegna félagslegrar aðstoðar samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna að eiga lögheimili á Íslandi var ekki talið að reglugerðarheimild þágildandi 5. mgr. 9. gr., eins og hún yrði skýrð samkvæmt orðanna hljóðan og í samræmi við markmið ákvæðisins, veitti ráðherra vald til þess að víkja frá skýrum viðmiðunum 2. mgr. 9. gr. vegna fyrri búsetu lífeyrisþega erlendis. Af sömu ástæðum var ekki fallist á það með TR að 14. gr. laganna, sem mælti fyrir um að ákvæði laga um almannatryggingar giltu um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við ætti og ráðherra veitt almenn heimild til að setja nánari reglur um greiðslur samkvæmt lögunum, veitti ráðherra slíka heimild. Þótt lagt yrði til grundvallar að sérstök uppbót samkvæmt ákvæðinu hefði um langa hríð verið greidd í hlutfalli við búsetutíma hér á landi, og að ekkert væri komið fram í málinu sem benti með beinum hætti til þess að löggjafinn hefði ætlað að breyta þeirri framkvæmd, yrði að gera þá kröfu til löggjafans að lögin geymdu skýr og ótvíræð ákvæði um að ráðherra væri heimilt með reglugerð að víkja frá hinni afdráttarlausu skilgreiningu laganna á þeirri fjárhæð sem þarf til að lífeyrisþegi geti framfleytt sér hér á landi.

Loks var talið að framkvæmd TR á greiðslum til A hefði falið í sér mismunun á grundvelli búsetu í skilningi 65. gr. stjórnarskrárinnar og því yrði sú lækkun sérstakrar uppbótar sem A sætti ekki réttlætt með því að ákvæði 2. mgr. 9. gr. væri heimildarákvæði.
 
Landsréttur segir í dómsorði sínu að í dómaframkvæmd hafi stjórnarskrárákvæðið verið skýrt svo að skylt sé að lögum að tryggja rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu eftir fyrir fram gefnu skipulagi sem ákveðið sé á málefnalegan hátt. Hefur almenni löggjafinn vald um það hvernig því skipulagi er háttað en það verður eigi að síður að fullnægja þeim lágmarksréttindum sem í 1. mgr. 76. gr. felast og uppfylla skilyrði 65. gr. stjórnarskrárinnar um bann við mismunun, sbr. dóm Hæstaréttar 19. desember 2000, í máli nr. 125/2000.

 

Ljóst er að markmið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 er að heimila áfrýjanda að greiða viðbótargreiðslur vegna framfærslu til lífeyrisþega ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án slíkrar greiðslu. Í ákvæðinu koma fram skýrar viðmiðanir um það hvenær lífeyrisþegar teljast ekki geta framfleytt sér án sérstakrar uppbótar og er í ákvæðinu sett fram tiltekin fjárhæð heildartekna sem miða skuli við. Ekki er að finna neina beina heimild í 9. gr. laganna til þess að tengja greiðslur við búsetutíma hér á landi í samræmi við ákvæði 1. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 ólíkt því sem gildir um heimilisuppbót og endurhæfingarlífeyri á grundvelli 3. mgr. 7. gr. og 2. mgr. 8. gr. núgildandi laga nr. 99/2007.
Tryggingastofnun byggði sýknukröfu sína loks á því að ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 væri heimildarákvæði og ætti stefnda því í engu tilviki skýlausa kröfu um bætur samkvæmt ákvæðinu, heldur fari sú bótagreiðsla eftir þeim reglum sem áfrýjandi setur.
Landsréttur segir um þessa málsástæðu TR:
„Hvað þessa málsástæðu varðar athugast að áfrýjandi nýtti heimild sína til að greiða stefndu sérstaka uppbót á lífeyri til framfærslu. Samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Í því felst að við framkvæmd laga nr. 99/2007 verða hlutlægar og málefnalegar ástæður að liggja til grundvallar mismunandi greiðslum til bótaþega. Þar sem tekjuviðmið lágmarksframfærslu í 2. mgr. 9. gr. laganna er afdráttarlaust og tilgangur ákvæðisins, í samræmi við 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, er að tryggja þeim lífeyrisþegum sem búsettir eru hér á landi sérstaka uppbót á lífeyri, geti þeir ekki framfleytt sér hér á landi án hennar, verður ekki talið hlutlægt og málefnalegt sjónarmið að lækka þá greiðslu vegna þess að viðkomandi hafi áður búið erlendis um tíma. Með því að framkvæmd áfrýjanda á greiðslum til stefndu fól þannig í sér mismunun á grundvelli búsetu í skilningi 65. gr. stjórnarskrárinnar verður sú lækkun sérstakrar uppbótar sem stefnda sætti ekki réttlætt með því að ákvæði 2. mgr. 9. gr. sé heimildarákvæði.“
 
Öryrkjabandalag Íslands lýsir yfir ánægju sinni með að áralangri baráttu í máli þessu sé nú lokið með góðri niðurstöðu. Ljóst er að fordæmisgildi hans er mikið, en ætla má að hann nái til allra þeirra sem búa við skertan örorkulífeyri vegna fyrri búsetu utan Íslands. 
Dóminn í heild sinni má finna hér.