Skip to main content
Frétt

Dæmdur fyrir brot gegn fatlaðri konu.

By 7. september 2020No Comments
Maður um fimmtugt hefur verið dæmdur í 8 mánaða fangelsi, þó skilorðsbundið fyrir að brjóta á ungri þroskahamlaðri konu í skammtímavistun á vegum Reykjavíkurborgar. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur breytt verkferlum í kjölfar dómsins, meðal annars að reynt sé að ganga úr skugga um að tveir séu á hverri vakt.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir í 7. Grein að aðildarríkin viðurkenni að fatlaðar konur og stúlkur eru þolendur margþættrar mismununar og skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra.

Fjölmargar rannsóknir sýna að fötluðum konum er enn hættara við ofbeldi en fötluðum körlum. Einnig að ofbeldi þrífst í aðgreiningu (aðgreindum sérúrræðum fyrir fatlað fólk). 

Ofbeldi á stofnunum og öðrum aðgreindum búsetuúrræðum felst einkum í að: 

  • Einkalíf er ekki virt 
  • Þær eru vanræktar.
  • Fatlaðar konur eru látnar gera eitthvað gegn vilja sínum.
  • Þær eru niðurlægðar.
  • Starfsfólk dregur úr sjálfsvirðingu og sjálsfákvörðunarrétti viðkomandi með ofríki. 
  • Kynferðisofbeldi algengt 
  • Gerendur eru aðrir íbúar, starfsfólk, bílstjórar, læknar og meðferðaraðilar (therapists). 

 Hér er hlekkur á viðamikla rannsókn um ofbeldi gegn fötluðum konum.

Í dóminum kemur fram að maðurinn misnotaði aðstöðu sína þar sem hann starfaði í skammtímavistun að Holtavegi og braut gegn konunni, Kristínu Hrefnu Halldórsdóttur. Hann skipaði Kristínu að fara í sturtu, þar sem hann svo þvoði henni sjálfur um líkamann, þar á meðal um kynfæri og brjóst. Kristín hefur aldrei þurft aðstoð við að baða sig. Maðurinn læsti að þeim baðherbergishurðinni á meðan, og bað Kristínu um að segja ekki frá sturtuferðinni. Hins vegar mætir sá starfsmaður sem var að koma á vakt, óvenju snemma, og sér að hurðin var lokuð, og maðurinn inni. Fyrir þetta er maðurinn dæmdur í 8 mánaða skilorðsbundið fangelsi, fyrir kynferðisbrot og brot í opinberu starfi.

 „Ég tel að hér sé um mjög mikilvægan dóm að ræða, þar sem orð fatlaðrar konu eru tekin trúanleg og dómur felldur á grundvelli þeirra. Það er í anda samnings Sameinuðu þjóðanna“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins.

Kristín og móðir hennar, Brynhildur Artúrsdóttir, vona að þetta mál veiti öðrum fötluðum konum kjark til að stíga fram, lendi þær í ofbeldi, og að hlustað verði á þær.

„Ég vil af þessu tilefni hvetja fatlaðar konur, hafi þær verið beittar ofbeldi, hverju nafni sem það nefnist, til að stíga fram og segja frá“ segir Þuríður Harpa.