Skip to main content
Frétt

Sáttardagurinn

By 8. nóvember 2018No Comments

8. nóvember ár hvert er helgaður baráttunni gegn einelti. Forsaga dagsins er sú að Verkefnisstjórn í aðgerðum gegn einelti ákvað á sínum tíma að standa að sérstökum degi gegn einelti 8. nóvember ár hvert og var dagurinn haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti árið 2011. Vakin er athygli á þessu á vef Menntamálastofnunar. Ýmsir viðburðir eru í dag af þessu tilefni.

Sáttardagurinn

Af þessu tilefni er skólastarf víða brotið upp. Til dæmis í Seljaskóla í Reykjavík þar sem dagurinn er nefndur Sáttardagur. Þar er skólastarfið brotið upp og nemendendur skólans vinna saman þvert á áranga. Hópar vinna að fjölbreyttum verkefnum í anda SÁTTarinnar, og gildir einu hversu gamlir nemendurnir eru. Þannig eru nemendur alveg frá 1. og upp í 10. bekk saman í hóp. Þema dagsins í Seljaskóla er: Samskipti í anda Sáttarinnar. Öllum nemendum skólans er skipt upp í hópa sem bera heiti heimsálfa og færast þeir milli hópa innan hverrar heimsálfu. „Sáttardagurinn hefur alltaf verið einn af skemmtilegustu skóladögum ársins og ánægjulegt að fylgjast með nemendum vinna saman þvert á árganga,“ segir í umfjöllun skólastjórnenda á vef skólans.

Gegn einelti og kynferðisofbeldi

Menntamálastofnun greinir frá því að verkefnisstjórn gegn einelti var skipuð fulltrúum fjármálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis og var hún skipuð í kjölfarið á útgáfu Greinargerðar um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum sem kom út í júní 2010, þar sem lögð var fram tillaga að því að einn dagur árlega yrði tileinkaður baráttunni gegn einelti og kynferðislegri áreitni (ofbeldi).

Greinargerðin var sett fram af óformlegum starfshópi sem í voru fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis, félags- og  tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis og Lýðheilsustöð. Upphaflega tillagan hefur tekið breytingum og hefur dagurinn frá árinu 2017 verið helgaður baráttunni gegn einelti í skólum landsins. Menntamálastofnun hefur séð um umsjón dags gegn einelti frá árinu 2015.