Skip to main content
Frétt

Eggið og hænan

By 11. febrúar 2020No Comments

Stjórnvöld hafa birt dómsdagsspár um fjölgun öryrkja og yfirvofandi gjaldþrot almannatryggingakerfisins. En aldrei hefur verið leitað svara við grundvallarspurningunni, hvers vegna fjölgar þeim sem eiga allt sitt undir almannatryggingum?

Í skýrslu Kolbeins Stefánssonar félagsfræðings fyrir Öryrkjabandalagið, koma fram athyglisverðar staðreyndir. Þegar Kolbeinn rýndi tölurnar á bak við fjölgun örorkulífeyrisþega, kom í ljós að 40% þeirra sem komu nýir inn á örorku, voru konur yfir fimmtugt. 40%!

Um sama leyti birti Eurostat niðurstöður úr vinnumarkaðskönnun sem gerð var um alla álfuna. Þar kom í ljós að 9% Íslendinga telja sig hafa umönnunarskyldu gagnvart sjúkum eða fötluðum ættingja. Á Norðurlöndunum er samsvarandi tala um 3%.

Það skyldi þó ekki vera að þessi 9% væru að mestu konur?

Nýlega birtist frásögn konu sem dregur fram lífið á smánarlífeyri. Hún fæddist ekki svona segir hún. Hún lenti ekki í slysi eða veiktist. Hún varð öryrki vegna erfiðisvinnu og áfalla.

„Ég er bara rétt rúmlega sextug, en ég er strax komin í ruslakistuna. Það er búið að afskrifa mig. Mér líður eins og mér hafi verið hent, að ég sé kartöflumamma sem allt líf hefur verið sogið úr. Mér finnst ég ósýnileg, finnst eins og ég sé ekki til fyrir samfélaginu, að mitt líf sé einskis metið.“

Hvernig tókst okkur að skapa svona samfélag? Erum við kerfisbundið að níðast svo á konum að þær á endanum gefast upp? Og á sama tíma höfum við búið svo um hnútana í heilbrigðiskerfi okkar að við veltum stórum hluta umönnunar yfir á aðstandendur.

Við þurfum að fækka öryrkjum, segja stjórnmálamennirnir. Fyrr getum við ekki boðið þeim upp á mannsæmandi líf. Er ekki ljóst að við þurfum að taka til hendinni annars staðar? Við þurfum grundvallarbreytingar á samfélagi okkar, svo við séum ekki að framleiða öryrkja, með lágum launum og umönnunarskyldu umfram það sem eðlilegt getur talist?

Hvort kemur á undan, eggið eða hænan? Við þurfum að opna augun fyrir vandanum og einhenda okkur í að leysa hann. En á sama tíma getum við ekki lokað augunum fyrir þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir núna. Allt of margir lifa við fátæktarmörk og því getum við breytt strax.

Allt sem þarf er vilji.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. febrúar 2020