Skip to main content
Frétt

Ekkert á að tefja TR

By 1. febrúar 2019No Comments
Ekkert er því til fyrirstöðu að Tryggingastofnun ríkisins hefji útgreiðslur samkvæmt réttum útreikningi vegna búsetu nú þegar. Reiknireglan liggur fyrir og TR hefur allar upplýsingar sem þarf. Fjármálaráðherra er skýr um að ekki þurfi sérstakar fjárheimildir til þess að fólk njóti lögbundinna réttinda.

Þrátt fyrir að TR hafi í byrjun janúar sagst myndu kynna breytta framkvæmd í lok janúar, bólar ekkert á breytingum. Félagsmálaráðuneytið hefur viðurkennt að TR hafi hlunnfarið hundruð örorkulífeyrisþega um yfir hálfan milljarð króna á ári, árum og áratugum saman. 

Klippt og skorið

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, skrifaði stjórn Tryggingastofnunar ríkisins, þann 29. janúar. Þar benti hún stjórninni á að enn hefði útreikningur vegna búsetuhlutfalls ekki verið leiðréttur, þrátt fyrir að margir mánuðir hafi liðið frá því að Umboðsmaður birti álit sitt.

„Þar er bara um lögbundin réttindi að
ræða sem við verðum að uppfylla.“
– Bjarni Benediktsson, 31. janúar 2019
 

Þuríður Harpa er mjög skýr um það í bréfi sínu til stjórnar TR „að ekkert sé því til fyrirstöðu að hefja útgreiðslur samkvæmt réttum útreikningi nú þegar. Útreiknireglan liggur fyrir og TR hefur allar upplýsingar sem þarf.“

Rangar fullyrðingar

Í bréfinu fer Þuríður Harpa yfir yfirlýsingu TR frá 7. janúar. Hún bendir á vafasama fullyrðingu TR um að úrskurðarnefnd almannatrygginga og úrskurðarnefnd velferðarmála hafi „í gegnum tíðina“ staðfest úrskurði TR um búsetuútreikning. Þetta hefur endurómað í fjölmiðlum og jafnvel í máli félagsmálaráðherra á Alþingi.  

Ekki bólar enn á því og heldur ekki að fólk
fái greitt í samræmi við álit Umboðsmanns
og viðurkenningu ráðuneytisins.
 

„Með þessu er gefið til kynna að framkvæmdin hafi verið óumdeild til fjölda ára. Þetta er rangt og ÖBÍ gerir alvarlegar athugasemdir við að þessu sé haldið fram.“

Fjármálaráðherra skýr

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var á Alþingi, 31. janúar, spurður út í búsetuskerðingarnar og fjárheimildir til að leiðrétta hlut þeirra sem voru hlunnfarnir af TR. Hann var skýr í máli sínu og sagði að fjármögnun væri sjálfsögð.

„Fjármögnun þess [skiptir] í sjálfu sér engu máli, vegna þess að þar er bara um lögbundin réttindi að ræða sem við verðum að uppfylla. Það er þá bara loforð sem stendur. Það er þá bara krafa sem fólk á á ríkið og það reiknast af ríkissjóði, hvort sem menn hafa fjármagnað það sérstaklega eða ekki. Við bíðum niðurstöðu þessarar yfirferðar um heildarfjárhæðina.“

Svo mörg voru þau orð.