Skip to main content
Frétt

„Ekki hægt að fá gildishlaðnari viðurkenningu“

By 5. desember 2018No Comments

„Kærleikskúla. Þetta er fallegt orð og ég trúi varla að hægt sé að fá gildishlaðnari viðurkenningu,“ sagði Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdarstjóri þróunarsviðs Íþróttasambands fatlaðra á Íslandi, sem í dag hlaut Kærleikskúlu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Kærleikskúlan var afhent við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum en fjölmargir gestir hlýddu á kórsöng og jólalög í flutningi Bjöllukórsins. Eliza Reid forsetafrú afhenti Önnu Karólínu viðurkenninguna.

Anna Karólína þakkaði Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra fyrir „einstakt samstarf í gegnum árin. Þar er fólk sem vinnur með hjartanu og á mikið hrós skilið. Verkefni þeirra eru unnin bak við tjöldin en eiga skilið sviðsljósið alla daga. Börnin sem hafa sótt og sækja þar þjónustu og hafa fengið tækifæri til sumardvalar í Reykjadal eru sannarlega í góðum og kærleiksríkum höndum. Ef ég fengi að ráða, væruð það þið sem væruð að taka á móti Kærleikskúlunni 2018,“ sagði Anna Karólína þegar hún tók við viðurkenningunni og bætti við: „Ég vil ítreka að mjög margir eiga hlut í þessari kúlu með mér. All það góða fólk sem tengist starfi ÍF og Special Olympics á Íslandi og ekki síst þeir sem ahfa tekið við keflinu og aðstoðað við ný verkefni. Í þeim hópi er fólk sem aldrei hefur tengst starfi ÍF en er tilbúið að leggja lóð á vogarskálar til að marka ný spor og hefur trú að allt sé hægt.“

Þetta er í sextánda sinn sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra gefur frá sér Kærleikskúluna en allur ágóði af sölu hennar rennur til sumar – og helgarbúða fyrir fötluð börn og ungmenni í Reykjadal.

Kærleikskúla ársins er eftir Elínu Hansdóttur og ber heitið Terrella. Á hverju ári er valinn sérstakur handhafi kærleikskúlunnar sem fær hana í viðurkenningarskyni fyrir störf sín í þágu fatlaðra í samfélaginu.