Skip to main content
Frétt

Engin uppgjöf þrátt fyrir vonbrigði

By 14. desember 2017No Comments

„Þetta eru umtalsverð vonbrigði. Ég segi bara alveg eins og er,” segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalags Íslands.” Í frumvarpi til fjárlaga næsta árs, sem kynnt var í dag, fer lítið fyrir kjarabótum til örorkulífeyrisþega.

„Við höfum lagt ríka áherslu á að skerðingar, krónu á móti krónu, verði afnumdar, tekju- og eignamörk hækkuð og að NPA verði lögfest fleiri mál. Það er ekki að sjá að þessi mikilvægu mál hafi náð eyrum ríkisstjórnarinnar ef marka má frumvarpið til fjárlaga sem var kynnt í dag. Við eigum eftir að fara betur yfir frumvarpið og gera þingmönnum og öðrum grein fyrir því sem betur má fara. Við ætlum alls ekki að leggja árar í bát. Engan veginn. Við hvetjum Alþingismenn til þess að breyta málum til betri vegar. Það er í þeirra höndum að gera það og á það lögðum við ríka áherslu þegar við afhentum þingflokksformönnum og ráðherrum jólagjöf Öryrkjabandalagsins í dag.”

Jólagjöfin til þingmanna er borðspilið „Skerðing” – ömurlegt spil fyrir alla fjölskylduna. Hópur frá Öryrkjabandalaginu kom á Austurvöll við þingsetninguna í dag og spilaði þetta spil, sem ómögulegt er að vinna. Reglur spilsins eiga stoð í veruleika fjölmargra. Tekjur eru naumt skammtaðar frá upphafi og skerðingar falla til hægri og vinstri. Óvissan er alger og drjúgur hluti vinnulauna og annarra tekna hverfur vegan skerðinga. En það þarf ekki að vera svona. Það er hægt að breyta reglunum og bæta kjör þeirra sem verst eru settir. Á það voru þingmenn minntir þegar Þuríður Harpa, formaður, Halldór Sævar Guðbergsson og Bergur Þorri Benjamínsson, gjaldkeri, afhentu þeim Skerðingarspilið í Alþingishúsinu í dag.