Skip to main content
Frétt

Barátta í 60 ár

By 5. maí 2021No Comments
Það eru 60 ár frá stofnun Öryrkjabandalags Íslands. Eftir nokkurn undirbúning, var Öryrkjabandalagið formlega stofnað þann 5. maí 1961, af sex félögum. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Aðildarfélögum hefur fjölgað jafnt og þétt og eru nú 41 talsins. 

Hagsmunirnir  eru enn þeir sömu, og baráttan enn sú sama. Að fatlað fólk fái notið lífs til jafns við aðra. Það er í raun stórmerkilegt að árið 2021, 60 árum eftir stofnun bandalagsins, skulum við enn vera að kljást við fordóma gagnvart fötluðu fólki. Enn vera að berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum. Enn vera að slást við ríkisvaldið, sem ávallt skammtar naumt. 

Í samanburði við frændur okkar á Norðurlöndunum er það hlutfall sem Ísland setur af landsframleiðslu til almannatrygginga (örorkulífeyris) það lægsta. Þrátt fyrir það eru uppi háværar raddir um að þjóðin hafi ekki efni á að brauðfæða fatlað fólk. „Hver á að borga“ heyrist úr sölum Alþingis. 

Við sem þjóð hljótum að geta gert með okkur þann samfélagssáttmála að enginn á þessu ríka landi, þurfi að líða skort. Að enginn sé jaðarsettur sökum fötlunar. Að við tökum nú höndum saman og útrýmum fátækt í eitt skipti fyrir öll og byggjum upp samfélag þar sem allir hafa tækifæri. Það er nefnilega nóg til!