Skip to main content
Frétt

Krafan er að enginn sé skilinn eftir

By 3. maí 2019No Comments

Formaður Öryrkjabandalags Íslands og formaður Eflingar voru fyrstar á svið á Ingólfstorgi. Þar með var brotið blað í sögu þessa dags en aldrei áður hefur það gerst að formaður Öryrkjabandalagsins haldi fyrstu ræðu 1. maí á Ingólfstorgi. Inntak ræðu Þuríðar Hörpu var að enginn velur að veikjast, fatlast eða fæðast fatlaður, að örorka er ekki val einstaklings. Hinsvegar sé það pólitískt val að halda þessum hópi í örbrigð og fátækt. „Krafa okkar er að ef við veikjumst, fötlumst eða fæðumst fötluð fáum við SAMT að eiga mannsæmandi líf.“ „Öryrkjar eru þverskurður samfélags og að stærstum hluta fólk sem á sér langa sögu á vinnumarkaði, fólk sem lagt hefur samfélaginu til vinnandi hönd meðan það gat og auðgar enn samfélagið á ýmsan hátt. Stolt, frábært fólk sem vissulega leggur sitt af mörkum alla daga. Hinn raunverulegi auður landsins erum við öll og við erum allskonar, ekkert okkar er æðra öðru“. Ekki hefur verið haft hátt um þau verk sem öryrkjar inna af hendi án þess að fá greiðslur fyrir s.s. margvísleg sjálfboðaliðastörf. Þá benti formaður ÖBÍ á að sérstaklega séu öryrkjar, fatlað og langveikt fólk og hópur ellilífeyrisþega í þeirri vondu stöðu að geta ekki framfleytt sér af smánarlágum lífeyri, auk þess sem skerðingar séu allt að 100%. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar hélt þrumandi ræðu þar sem hún sagði „Sá tími er liðinn að við látum okkur nægja að bíða og biðja, sá tími er liðinn að við látum okkur nægja að fara bónleið og kreista út þúsundkalla frá auðstéttinni. Við erum hér og þau skulu venjast því, við erum hér og ætlum að krefjast og berjast alla daga ársins.“ Þuríður Harpa sagði daginn merkilegan þar sem hann marki tímamót. „ Í dag hafa verkalýðsfélögin tekið höndum saman við Öryrkjabandalagið, í dag mörkum við upphaf nýrra tíma, nýrrar baráttu þar sem enginn er skilinn eftir!“ 

ÖBÍ fólk í kröfugöngu