Skip to main content
Frétt

Enn er beðið eftir réttlæti!

By 9. mars 2018No Comments

„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu.“ Þetta sagði  Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi í september sl., þá þingmaður í stjórnarandstöðu.

Það er ekki hægt að segja fólki sem þarf að berjast í hverjum einasta mánuði til þess að ná endum saman að halda áfram að bíða. Auðvitað taka allir undir orð Katrínar.

Eða hvað?

 „Það er ekki rétt sem sagt er að ekkert hafi verið gert fyrir öryrkja í fjárlögum fyrir árið 2018. Þar skiluðu sér inn ákveðnar kjarabætur til öryrkja þannig að nú er staðan sú að 29% öryrkja fóru upp í 300.000 kr. greiðslur um áramótin og var bætt í við meðferð fjárlagafrumvarpsins.“ Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, nú forsætisráðherra, í svari við fyrirspurn um kjör örorkulífeyrisþega á Alþingi í vikunni.

Við orð ráðherra er ýmislegt að athuga. Til dæmis er þetta ekki alls kostar rétt. Það heyrir nefnilega til undantekninga að örorkulífeyrisþegar fái slíkar upphæðir frá almannatryggingum. Jafnvel þótt svo væri, þá stendur eftir að sjö af hverjum tíu öryrkjum ná því bara alls ekki.

Stærstur hluti örorkulífeyrisþega hefur einhverjar aðrar tekjur en frá almannatryggingum. Sumir eru í vinnu, oft í hlutastörfum. Sumir fá lífeyri á grundvelli réttinda sem þeir hafa aflað sér á vinnumarkaði. En hvaða gildi hefur það gagnvart kerfisbundnu óréttlæti?

Staðreyndin er sú að stór hluti þeirra situr pikkfastur í fátæktargildru. Hverri örðu af sjálfsbjargarviðleitni er miskunnnarlaust sópað burtu með grimmum skerðingum: Krónu á móti krónu.

Allt er þetta fólk enn að „bíða eftir réttlætinu“. Að halda þaki yfir höfuðið, mat á diskunum svo ekki farið út í „lúxus“ eins og tómstundastarf fyrir börnin eða bara nýja úlpu.

Grunnframfærsla verður að vera tryggð, svo að fólk geti lifað mannsæmandi lífi. Það gerir enginn á þeim rúmum 240 þúsund krónum sem fólk hefur milli handanna eftir skatta og skerðingar.

Forsætisráðherra nefndi réttilega í umræðunni í þinginu að greina þarf „orsakir þess að öryrkjum hefur fjölgað“ og grípa inn í. Það hljóta stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins að gera. Og þau hljóta að líta vel og vandlega í eigin barm þegar við hugsum um þann veruleika að fólk fær örorkumat vegna álags, líkt og til dæmis sjúkraliðar hafa bent á.

Í því er hins vegar ekki fólgið svarið við spurningunni um kjör öryrkja. Og svo mikilvæg sem þau verkefni eru, þá felast ekki í þeim neinar kjarabætur fyrir þau sem misst hafa starfsgetuna eða alltaf búið við skerta starfsgetu.

„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu,“ sagði þingmaðurinn.

Hvað þarf að bíða lengi eftir því að forsætisráðherrann geri þau orð að sínum?