Skip to main content
Frétt

Er þetta eðlilegt?

By 27. desember 2018No Comments

Eftir Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formann málefnahóps ÖBÍ um sjálfstætt líf

 

„Heimilt er að setja í samkomulag notanda og sveitarfélags um vinnustundir fyrirvara um samþykki fyrir hlutdeild ríkisins í samningsfjárhæð væntanlegs einstaklingssamnings.“

Þetta er það sem ég hafði verulegar áhyggjur af.

Þarna þykist ráðuneytið vera að „gefa“ sveitarfélögum og notendum heimild til að notandinn afsali sér réttindum sínum ef ríkið samþykkir ekki hlutdeild sína í samningnum.

Bara svo það sé á hreinu þá verður fólk að gera sér grein fyrir því að fatlað fólk á Íslandi á rétt á notendastýrðri persónulegri aðstoð skv lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Í 11. gr laganna stendur:
„Einstaklingur á rétt á notendastýrðri persónulegri aðstoð hafi hann mikla og viðvarandi þörf fyrir aðstoð og þjónustu, svo sem við athafnir daglegs lífs, heimilishald og þátttöku í félagslífi, námi og atvinnulífi.“

Í 3.gr. laganna er svo kveðið á um að sveitarfélög beri ábyrgð á að taka ákvarðanir sem byggjast á lögum þessum
Í 5.gr. laganna segir að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk ásamt kostnaði.
Í 38.gr. er svo skýrt kveðið á að sveitarfélög beri ábyrgð á að fjármagna þjónustu við fatlað fólk og gera áætlanir í samræmi við þá þjónustu sem ber að veita á grundvelli þessara laga.

Það er því alveg ljóst að samkvæmt lögunum að einstaklingurinn á rétt á NPA og sveitarfélögin bera ábyrgðina. Það hlýtur því að vera mjög óeðlilegt að í reglugerð sé sett heimild til að víkja algjörlega frá lögunum (og í raun og veru mannréttindasamningum) þar sem notandi afsalar sér réttindum sínum og sveitafélaga ábyrgð sinni á þjónustu við fatlað fólk.

Ég myndi því hvetja alla tilvonandi notendur eða hafna öllum slíkum samkomuĺögum og ekki skrifa undir eitthvað sem afsalar þeim réttindum sínum.

Gæti fólk séð fyrir sér álíka orðalag í öðrum reglugerðum eins og til dæmis um grunnskóla? Gæti ráðherra sett í reglugerð heimild til að launamaður og atvinnurekandi gerðu með sér samning þar sem launamaðurinn afsalaði sér lagalegum réttindum sínum?

Hvað finnst ykkur um þetta, er þetta eðlilegt?