Skip to main content
Frétt

Er þetta ekki eignaupptaka?

By 25. febrúar 2015No Comments
Grein eftir Guðmund Inga Kristinsson sem birtist í Morgunblaðinu 12. febrúar 2015. 

Eftir Guðmund Inga Kristinsson:

 „Ekki var stjórninni bara illa við öryrkja, því einnig á sama tíma voru sett lög um að bannað væri að ræða lífeyrissjóðsmál á aðalfundi VR.“ Breytingar hafa verið gerðar á réttindum öryrkja í nýjum reglum Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks (SVS). Öryrkjar hafa ekki lengur rétt á styrk úr starfsmenntasjóði. Þeir halda rétti sínum í 12 mánuði. Öryrkjar sem eiga uppsöfnuð stig sem safnað var samkvæmt eldri reglum Starfsmenntasjóðsins (SVS) hafa möguleika á því að nota þau til 31. desember 2015.

Réttindi mín í starfsmenntasjóði, samkvæmt eldri reglu, voru þann 19.1. 2015 251 stig, sem er í krónum upp á 251.000. Til að nota þessi 251 stig verð ég að að borga 251.000 kr. Tvöhundruð fimmtíu og eitt þúsund krónur í minni eign verða gerðar upptækar með reglugerðarbreytingu í boði VR, LÍV og SA vegna þess að ég á ekki til 250.000 kr. til að fara á námskeið.
Ég tel að breytingar sem gerðar hafa verið á réttindum öryrkja í nýjum reglum Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks vera eigna-upptöku og brot á Stjórnarskrá Íslands. Þessi árás á öryrkja frá VR er framhald á taumlausum árásum þeirra á okkur, sem hófust fyrir nokkrum árum.
Þetta stríð þeirra hófst þegar áralöng réttindi okkar öryrkja sem voru í lögum VR voru þurrkuð út. Réttur okkar til að vera í trúnaðarráði og að vera í framboði til stjórnar VR var fótum troðinn og af okkur tekinn og okkur vísað í okkar bás. 
Ekki var stjórninni bara illa við öryrkja, því að á sama tíma voru sett lög um að bannað væri að ræða lífeyrissjóðsmál á aðalfundi VR.
En ástæðan er sú að stjórn VR vill ekki umræðu um það að lífeyrissjóðsgreiðslur öryrkja og eldriborgara eru gerðar upptækar með sköttum og skerðingum af ríkinu og það með þeirra samþykki. Þetta plott hefur gengið fullkomlega upp hjá þeim og því þá ekki að taka einnig menntasjóðinn núna?
Skattur og skerðingar á lífeyrissjóðsbótum mínum og bótum frá TR eru um 2 milljónir á ári og þá vantar skerðingar á leigubótum o.fl. bótum í töluna. Þetta er sama upphæð og launþegi með 600.000 krónur á mánuði, eða 7,2 milljónir króna á ári, borgar í skatt.
Því er það undarlegur málflutningur að tala um okkur öryrkja sem kostnað á þjóðfélaginu. Ég borga um 600 þúsund í skatta og síðan eru lífeyrissjóðsgreiðslur mínar frá Lífeyrissjóði verslunarmanna notaðar til að skerða bætur mínar frá Tryggingastofnun ríkisins um 1,4 milljónir á ári. Launþegi með 600.000 krónur í mánaðarlaun heldur eftir skatt um 400.000 krónum, en ég öryrkinn um 200.000 krónum. Annar lifir á sinni krónutölu, en hinn ekki. Er markmið ykkar að svelta veikt og slasað fólk og svipta það húnæði? Við borgum flest yfir 50% af tekjum okkar í húsnæðið.
Ég var að fá bótahækkun frá TR upp á heilar 2.500 krónur á mánuði og þær verða skertar vegna 3.000 kr. hækkunar á mánuði frá lífeyrissjóðnum vegna vísitöluhækkunar. Eftir skatt og skerðingar eru þetta 900 krónur frá TR á mánuði. Já, níuhundruð krónur fyrir afborgun á stökkbreyttu húsnæðisláni, hækkun á mat, læknisþjónustu, lyfjum og fötum. Millistjórnendur fengu 600 þúsund króna hækkun eða úr rúmlega milljón í tvær milljónir á mánuði.
Eignaupptöku á lífeyrissjóðnum vill VR ekki ræða á aðalfundi. Láglaunaþeginn í VR má ekki vita það að greiðslur í lífeyrissjóð skila honum engu, heldur bara áframhaldandi fátækt í ellinni. Sparnaður þeirra hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna rennur í gegnum vasa þeirra og í vasa ríkisins, en stjórnarmenn í VR, ASÍ og atvinnurekendur í SA með yfir 700 þúsund krónur í mánaðarlaun eru þeir einu sem græða á lífeyrissjóðunum og engar skerðingar eru hjá þeim.
Frá 2008-2015 er hækkun mín á bótum TR 30% og á sama tíma var verðbólgan 60% og því vantar um 60.000 krónur á mánuði eftir skatt upp á bætur mínar samkvæmt lögum. Að hræra saman öllum bótaflokkum TR og taka síðan meðaltalið af því til að sýna falska leiðréttingu er ekkert annað en svik og lögbrot. Eignaupptaka á lífeyrissjóðinum, bótum frá TR, menntasjóði og öðrum keðjuverkandi skertum bótum er brot á stjórnarskránni. Þetta er ekkert annað en þjófnaður á lögbundnum framfærslum hjá öryrkjum og eldri borgurum. Öryrkjar og eldri borgarar eru ekki bara annars flokks fólk í augum hálaunaðra stjórnenda heldur bara excel-kostnaðartala á blaði sem á ekki rétt á að lifa af í þessu samfélagi.
Hvernig eigum við að borga stökkbreytt lán á sama tíma og okkur er neitað ólöglega um leiðréttingu á 30% verðbótahækkun? Við höfum ekki fengið þessa hækkun frá 2008 og á sama tíma hefur matur, fatnaður, læknisþjónusta og lyf hækkað um og yfir 60%.
Að reka fólk í hjólastól úr 50% vinnu eins og Strætó gerði sýnir einskæran brotavilja þeirra sem ráða öllu hér. Það mæti halda að veikir, slasaðir og eldri borgarar á Íslandi væri „virk“ hryðjuverkasamtök, sem má svelta, setja á götuna og neita um læknisþjónustu, lyf og vinnu. Eignaupptaka er svar þeirra sem ráða og það á eignum þeirra sem ekki geta farið í hart vegna veikinda, slysa og elli.
Lífeyrisréttindi eru hluti af kjörum launþega og þeirra eign og er því sparnaður okkar, en ekki 100% skattur sem má nota til skerðingar og eignaupptöku.
Höfundur er öryrki og formaður BÓTar.