Skip to main content
Frétt

Ferð án fyrirheits

By 2. nóvember 2018No Comments

Eftir Rósu Maríu Hjörvar, formann málefnahóps ÖBÍ um kjaramál.

 

Nú ræða menn á þingi afnám krónu á móti krónu skerðingar á framfærslu örorkulífeyrisþega. Nei, ágæti lesandi, þú ert ekki að lesa gamla frétt, þú hefur ekki dottið á hausinn eða slysast inn í tímavél. Þrátt fyrir áralanga umræðu og mikla samstöðu – þá ræða menn enn. Og er þetta mál þar með að skipa sér í hóp séríslenskra mála sem allir eru sammála um að eigi að leysa en engin „getur neitt“.

Til upprifjunar, fyrir þá sem hafa verið í dái eða erlendis síðasta áratug þá snýst málið um að allar tekjur öryrkja er dregnar af þeim jafnóðum, krónu fyrir krónu, og er það gert af þeim hluta af bótum sem kallast sérstök framfærsluuppbót. Þetta snýst ekki bara um atvinnutekjur, heldur líka um t.d.  lífeyrissjóðstekjur, dánarbætur, séreignasparnað, námsstyrki og styrki til endurhæfingar og tækjakaupa. Allt hirðir TR jafnóðum og öryrkjar sitja eftir með kostnaðinn.

Af hverju er svona flókið að afnema þetta? Eina skýringin sem fæst er að þetta verði að skoða jafnframt því að skoða þurfi nýgengi ungra karlmanna með geðræn vandamál á örorku. Ekki sé hægt að gera breytingar á þessu fordæmalausa óréttlæti fyrr en fundin verði úrræði fyrir þessa menn. Þótt umhyggja Páls Magnúsonar og SA fyrir velferð þessa unga fólks sé vissulega hrærandi, þá er okkur fyrirmunað að skilja hvers vegna það þurfi að blanda þessum tveimur hlutum saman; hvernig fólk er metið inn í kerfið og hvernig greitt er úr því.

Það er mikilvægt að taka vel á geðheilbrigðismálum ungs fólks. Það er meðal annars gert með því að auka úrræði, styrkja geðdeildir, sálfræðiþjónustu og styrkja framhaldskólana til þess að geta rúmað þetta unga fólk. Það er hins vegar ekki gert með því að hirða dánarbætur  eða lífeyrissjóðstekjur af langveikum ekkjum, námsstyrki af fötluðum námsmönnum eða launin af láglaunafólki í hlutastarfi. Það bætir ekki aðstöðu ungs fólks með geðræn vandamál.

Og ekki bara er þessi framkvæmd óréttlát, hún er beinlínis ólögleg. Krónu á móti krónu skerðing var afnumin hjá eldri borgurum í janúar 2017 og þá voru öryrkjar skildir eftir vegna þess að stjórnvöld töldu forsvarsmenn öryrkja vera of tregir í taumi hvað varðar starfsgetumat. Þáverandi ráðherra sagði beinlínis að öryrkjar fengu ekki þessa leiðréttingu vegna andstöðu ÖBÍ við starfsgetumat. Þannig geta stjórnvöld í lýðræðisríkjum ekki hagað sér, það er einfaldlega ólöglegt að gera upp á milli sambærilegra hópa vegna „samstarfsörðugleika“ og slíka einræðistilburði á að fordæma – ekki apa eftir eins og núverandi ríkistjórn virðist vera á góðri leið með að gera.

Það er skýr stefna núverandi ríkistjórnar að halda aftur af öllum kjarabótum til örorkulífeyrisþega þar til tekist hefur verið að troða svokölluðu stafgetumati í gegn. Ráðherrar og þingmenn segjast vera allir af vilja gerðir – að þeir vilji endilega bæta kjör okkar – en að engu sé hægt að lofa eða ráðstafa fyrr en starfgetumat hafi verið komið í gegnum þingið.

Og þar við situr. Eftir kynningu á hugmyndum um starfsgetumat hefur stjórn Öryrkjabandalagsins lýst sig andvígum þeim hugmyndum sem fyrir liggja. Ekki af því að við höfum svo gaman af því að vera fúll á móti. Þvert á móti er mikill hvati  fyrir alla öryrkja að samþykkja breytingar, það er margt sem þarf að bæta í núverandi kerfi og á meðan á þeirri vinnu stendur standa kjör öryrkja í stað. Það hefði því verið gott að geta afgreitt tillögur  um starfgetumat á jákvæðum nótum. Að komast upp úr þessum skurði sem kjaramál öryrkja hafa verið í undanfarin 12 ár og horfa fram á veginn. Það hlýtur því að gefa lesendum einhverja vísbendingu um hversu lélegar tillögur af starfgetumati eru, þegar stjórn sá sér ekki fært að gera annað en að hafna þeim alfarið þar sem þær eru óraunhæfar.  Okkur ber skylda til þess að verja langtíma hagmuni fatlaðs fólk, óháð skammtíma ávinningi í samræðum við stjórnvöld. En það er ekki ásættanlegt að vera sett í þessa stöðu sem ekki getur kallast annað en fjárkúgunarstarfsemi.

Til þess að breiða yfir þessi fjárkúgunar starfsemi er reynt að flækja málin. Stjórnarþingmenn tala mikið um „flækjustigið“, að það þurfi „að leggjast yfir þetta“ og það krefjist „heildarendurskoðunar“. Það er sorglegt að heyra hversu illa undirbúnir stjórnarþingmenn virðast vera til þess að takast á við það lagaumhverfi sem þeir eru kjörnir til þess að sinna og starfa undir og er það mikið áhyggjuefni. En þá er gott að hafa öfluga stjórnarandstöðu og faglega sterk hagsmunasamtök. Nú liggur nefnilega fyrir mjög einföld lausn á því að afnema krónu á móti krónu skerðinguna. Frumvarpið er að koma úr umsagnarferli og hefur fengið jákvæða umsögn allra sem skipta máli. Það er því ekkert eftir nema að ýta á græna takkan þegar frumvarpið er lagt fyrir þingið – og ættu  stjórnarþingmenn að ráða við það. Eins og hæstvirtur heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir sagði á þinginu  11. október sl. Það á ekki að skipta neinu máli hvaðan gott kemur.

Þegar þingmenn eru búnir að ýta á græna takkann, þá getum við loksins hætt að ræða þessa blessuðu krónu á móti krónu skerðingu því hún verður ekki lengur til.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. nóvember 2018.