Skip to main content
Frétt

Fjármálaráðherra enn leiðréttur

By 21. mars 2019No Comments

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fullyrti á Alþingi í morgun að ÖBÍ hafni afnámi krónu-á-móti-krónu skerðingarinnar. Þetta er rangt. 

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði ráðherrann í morgun, hvernig ætti að afnema krónu-á-móti-krónu skerðinguna. 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, svaraði þessu ekki. Hann ræddi  hins vegar samráðshóp stjórnvalda, sem félagsmálaráðherra skipaði í fyrra, til að endurskoða almannatryggingakerfið, og niðurstöðu hans:

„[…] þeirri niðurstöðu er hafnað af Öryrkjabandalaginu. Í þeirri lausn sem er á borðinu er verið að afnema krónu á móti krónu skerðinguna en því er hafnað.“

Þetta er rangt.

Með ummælum sínum bergmálar ráðherrann ummæli Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í gær. ÖBÍ benti strax á að þau væru röng.

Öryrkjabandalag Íslands krefst þess að krónu-á-móti-krónu skerðingin verði afnumin tafarlaust og að örorkulífeyrir dugi til mannsæmandi afkomu. Þetta er og hefur verið eitt helsta baráttumál bandalagsins um árabil. Það veit ráðherrann vel.

Krónu-á-móti-krónu skerðingu á að afnema strax án tillits til annarra breytinga. Hún ein og sér heldur þúsundum fjölskyldna í fátæktargildru og hana á að afnema eina og sér. 

Skýrt og klárt

Rétt er að halda því til haga að ÖBÍ hefur í starfi hópsins lagt fram raunhæfar tillögur til þess að afnema skerðinguna. Það er ekki í verkahring ÖBÍ að birta skýrsludrög opinberra starfshópa. Hins vegar telur ÖBÍ, í ljósi ummæla ráðherrans á Alþingi, sér skylt að upplýsa, að í drögum að lokaskýrslu starfshópsins, er hvorki að finna útfærslur á því hvernighvenær á að afnema krónu-á-móti-krónu skerðinguna í heild. Þar er heldur ekki að finna neitt um að mannsæmandi afkoma fólks með skerta starfsgetu verði tryggð.

Meðal annars þess vegna treystir ÖBÍ sér ekki til þess að skrifa undir skýrslu samráðshópsins. 

Það yrði allri umræðu mjög til bóta að stjórnmálamenn kynntu sér málin áður en farið er með stóryrði úr ræðustól Alþingis. 

Í þessu samhengi má benda á að þetta er í þriðja sinn á yfirstandandi þingi sem ÖBÍ finnur sig knúið til þess að leiðrétta ummæli fjármálaráðherra á Alþingi, sjá hér og hér