Skip to main content
Frétt

Fjölgun örorkulífeyrisþega fyrst og fremst konur yfir fimmtugt.

By 26. september 2019No Comments
Í nýrri skýrslu Kolbeins Stefánssonar, doktors í félagsfræði, um fjöldaþróun örorkulífeyrisþega, kemur fram sú áhugaverða tölfræði að konur, komnar yfir fimmtugt, standa undir rúmlega 42% af fjölgun örorkulífeyrisþega.

Örorkulífeyrisþegum hefur fjölgað umtalsvert frá aldamótum, en breytingin yfir það lang tímabil gefur villandi mynd af þróun undanfarinna ára. Hægt hefur á fjölguninni eftir árið 2005 og nýjustu gögn benda til að hægt hafi enn frekar á henni eftir árið 2017.

Frá því í janúar 2017 hefur fjöldi örorkulífeyrisþega svo gott sem staðið í stað við 18 þúsund einstaklinga, en hlutfall hópsins af mannfjölda á vinnualdri hefur lækkað, úr 8,2% í 7,8%. Þannig virðist hafa dregið úr fjölgun örorkulífeyrisþega á síðastliðnum tveimur árum.

Sú umræða hefur verið nokkuð fyrirferðarmikil að fjölgun örorkulífeyrisþega megi að mestu rekja til ungra karla. Hlutfall þeirra á meðal 20 – 24 ára karla hækkað vissulega um 0,9 prósentustig á milli 2008 og 2019. Það er nokkur hækkun, en af mjög lágum grunni. Hækkunin var líka minni í prósentustigum talið, en á meðal kvenna á aldursbilum 35 – 44 ára og 50 – 59 ára, sem þar að auki lagðist ofan á hærri grunnprósentu.

Stærstur hluti fjölgunar örorkulífeyrisþega verður rakinn til kvenna 50 ára og eldri, eða rúm 42%. Vægi þess hóps í mannfjöldanum hefur aukist, en einnig vegna hækkandi tíðni örorkulífeyrsþega í hópnum. Konur eru á hverjum tíma um 60% af örorkulífeyrisþegum og munurinn milli karla og kvenna eykst með hækkandi aldri. Þessi fjölgun kvenna á örorkulífeyri, er meiri en framlag allra karla til heildarfjölgunar örorkulífeyrisþega.

Að þessu viðbættu kemur fram í skýrslunni að Eurostat, evrópska hagstofan, mælir fjölda ára sem einstaklingar fæddir tiltekið ár, geta vænst að lifa við góða heilsu. Konur lifa að jafnaði lengur en karlar, en samkvæmt nýjustu mælingu Eurostat gátu drengir fæddir árið 2015 vænst fleiri ára við góða heilsu en stúlkur fæddar sama ár, eða 71,5 ár á móti 66,2 ár hjá stúlkunum. Annað athyglisvert er að í kjölfar hrunsins fækkaði þeim árum sem bæði kyn gátu vænst þess að njóta góðrar heilsu, en eftir 2009 fór árunum að fjölga sem karlar gátu vænst þess að lifa við góða heilsu, en hélt áfram að fækka hjá konum.

Konur eru því líklegri en karlar til að vera örorkulífeyrisþegar, og munurinn á kynjunum vex með aldri. Örorka er því kynjapólítiskt mál. Ef við viljum draga úr fjölgun öryrkja, þurfum við að greina hvað það er í lífshlaupi kvenna sem býr til þennan mun á kynjunum. Ein vísbending liggur í þeim mun sem er á fjölda kvenna og karla sem eru með örorku- eða endurhæfingarmat vegna stoðkerfisvanda.

 

Skýrsluna á PDF formi má lesa í heild sinni hér