Skip to main content
Frétt

Fjölmenni í afmælisfagnaði Blindrafélagsins

By 20. ágúst 2019No Comments

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ávarpaði gesti, og sagði frá því að fyrr um daginn hefði hann heimsótt Hamrahlíðina til að kynna sér starfsemi félagsins. Í þeirri heimsókn kom fram að vefsíða embættis forseta Íslands væri ekki aðgengileg blindum og sjónskertum. Í ávarpi sínu til afmælisgesta lagði forsetinn út af þessu og sagði meðal annars:

„Á þeim 80 árum sem liðið hafa frá því að Blindrafélagið var stofnað hefur margt breyst. Hér hefur verið stiklað á stóru, stofnun Blindravinnustofunnar, bygging hússins glæsilega við Hamrahlíð sem var tekið í notkun 1961. Ég naut þess að ganga þar um ganga fyrr í dag og lærði um leið mikið. Lærði um það sem er vel gert. Lærði um það sem má gera enn þá betur. Til dæmis lærði ég það að heimasíða embættisins, forseti.is, getur verið betri. Það þarf ekki að kosta mikið, það er hægt að breyta hinu og þessu. Smávegis hér og smávegis þar, sem er kannski bylting fyrir aðra, bylting fyrir hina sjónskertu, bylting fyrir hina blindu. Þetta getum við gert.“

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson

Forsetinn undirstrikaði en fremur að það væri ekki illur vilji sem lægi á bakvið þann skort á aðgengi sem fatlaðir upplifa, heldur skilningsleysi og skortur á þekkingu. Það væri því nauðsynlegt að Blindrafélagið héldi baráttu sinni áfram og að samfélagið allt hlustaði á kröfur og ábendingar þess. Forsetin benti á að í öflugu samfélagi eiga allir einstaklingar að fá að njóta sín við störf og leik og að það væri okkar allra að hjálpast að við að ná því markmiði.

Við sama tilefni tilkynnti félags og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, að ráðuneyti hans myndi styrkja leiðsöguhundaverkefni Blindrafélagsins um þrjár milljónir króna á þessu ári, og var samningur þess efnis undirritaður við það tilefni. 

 

Ásmundur Einar og Sigþór Hallfreðsson undirrita samninginn

Leiðsöguhundar eru mikilvægt hjálpartæki fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga, en þeir eru sérþjálfaðir aðstoðarhundar sem gera blindum kleift að komast leiðar sinnar í annars óaðgengilegu umhverfi.

Leiðsöguhundar eru ekki hvaða hundar sem er, þeir eru sérvaldir og prófaðir áður en þjálfun hefst og taka venjulega til starfa þegar þeir hafa náð um tveggja ára aldri. Þetta er mjög kostnaðarsamt ferli og hefur Blindrafélagið hingað til fjármagnað kaup á hundum hingað til lands. En sá kostnaður hefur verið sóttur í fjáraflanir félagsins og þá sérstaklega hið vinsæla leiðsöguhundadagatal. Það eru sjö starfandi leiðsöguhundar á landinu í dag en vonir standa til að fleiri fái að njóta þessa frábæra stuðnings. Nú hefur ráðuneytið hinsvegar ákveðið að koma að fjármögnun verkefnisins en þess ber að geta að hver leiðsöguhundur kostar milli 6 og 7 milljónir.

Gestir á afmælisfagnaði Blindrafélagsins