Skip to main content
Frétt

Flestir telja sig þurfa allt að tvöfaldan örorkulífeyri

By 12. mars 2020No Comments
Í könnun sem Gallup vann fyrir Öryrkjabandalagið í febrúar og mars, var spurt hvaða fjárhæð eftir skatt, myndi nægja þér til framfærslu, ef þú misstir starfsgetuna. Svörin voru mjög áhugaverð, en aðeins um fjórðungur þjóðarinnar telur sig geta lifað af ráðstöfunartekjum undir 400 þúsund.

Meðaltal framfærsluþarfar er rétt tæp 370.000 krónur, og ef tekin er frá yngsti hópurinn, 18-24 ára, sem væntanlega er að meirihluta í foreldrahúsum, þá er framfærsluþörfin að meðaltali 398 þúsund krónur hjá um 85% þátttakenda. Það eru rétt um tvöfaldar þær ráðstöfunartekjur sem bróðurpartur örorkulífeyrisþega hafa úr að spila hvern mánuð, alla mánuði ársins, allt sitt líf.

Þegar rýnt er í könnunina í heild telur 10% sig geta lifað af tekjum undir 200 þúsund, 16% af tekjum milli 200 og 299 þúsund, 18% telur sig þurfa tekjur eftir skatta á bilinu 350 til 399 þúsund, 13% þarf ráðstöfunartekjur á milli 400 og 449 þúsund, 11% þarf 450 – 499 þúsund og 17% telur sig þurfa yfir 500 þúsund í ráðstöfunartekjur.Kökurit sem sýnir hlutfallsskiptingu

 

Bein fylgni er milli aldurs og tekna þegar fólk metur hvað það þarf til framfærslu sinnar. Þannig hækkar framfærsluþörf með aldri, og hækkandi einstaklingstekjum.

Til dæmis meta þeir sem hafa einstaklingstekjur yfir 800 þúsund krónur framfærsluþörf sína að meðaltali 452.732 krónur, og 35% þeirra telur sig þurfa 500 þúsund eða meira.

 

 

 

Yngra fólk telur sig geta lifað af lægri fjárhæðum og athyglisvert er að sjá að 44% fólks á aldrinum 18 – 34 ára sem búa einir telja sig geta framfleytt sér á ráðstöfunartekjum lægri en 200 þúsund krónur. Barnlausir telja sig einnig komast af með minna, en um leið og barn er komið til sögunnar eykst framfærsluþörfin umtalsvert. Þannig telja aðens 9% ungra foreldra á aldrinum 18 – 45 ára sig geta framfleytt sér á ráðstöfunartekjum undir 200 þúsund krónum.Súlurit sem sýnir framfærsluþörf eftir aldri

 

Þegar skoðuð eru meðaltöl þess sem fólk telur sig þurfa til framfærslu hvern mánuð kemur í ljós að 74,3% telur sig þurfa ráðstöfunartekjur á frá 300 þúsund og yfir 500 þúsund.

Þegar kemur að upphæðum sem öryrkjar þekkja, telja rétt um 16% sig geta lifað af þeim ráðstöfunartekjum. Þar er stærsti hópurinn ungt fólk, 18 – 24 ára.