Skip to main content
FréttViðtal

Fólkið í ÖBÍ: Sif Hauksdóttir

Sif Hauksdóttir, formaður barnamálahóps ÖBÍ.

ÖBÍ réttindasamtök munu á næstu vikum birta viðtöl við fjölda fólks innan bandalagsins, bæði með léttum, persónulegum spurningum en einnig um málefni fatlaðs fólks. Fyrsta viðtalið er við Sif Hauksdóttur, nýjan formann barnamálahóps ÖBÍ.

Hvers vegna starfar þú í réttindabaráttu fatlaðs fólks?

Báðir synir mínir eru með vöðvarýrnunarsjúkdóm og ég vil leggja mitt að mörkum til að reyna að skapa betra samfélag fyrir þá og alla aðra. Samfélag sem gerir ráð fyrir öllum og hugsar um fatlað fólk sem hluta af heildinni ekki einhvern afmarkaðan hóp sem ekki þarf að gera ráð fyrir eða taka tillit til.

Fyrir hverju brennur þú?

Réttlæti.

Hver eru áherslumálin hjá málefnahópnum þínum?

Í barnahópnum er áherslan á réttindi barna, að benda á þau atriði sem við teljum að megi bæta þegar kemur að börnum og þeirri þjónustu sem þau fá. Að börn hafi aðgengi að tómstundum, frístund og félagsstarfi og fái viðeigandi þjónustu sem gerir þeim kleift að vera virkir þátttakendur í eigin lífi á sínum forsendum. Eins finnst okkur mikilvægt að hlusta á börnin sjálf, stóðum við fyrir hugmyndafundi unga fólksins núna í haust sem tókst ljómandi vel.

Hvert er þitt uppáhalds áhugamál?

Ég á fjögur börn, tvo hunda og er í námi, ég hef eiginlega ekki tíma fyrir áhugamál, en mér finnst gaman að ferðast svo ætli ég verði ekki að velja það.

Hvað er uppáhalds lagið þitt?

Ég á aldrei uppáhaldslög mjög lengi, ég finn mér eitt sem ég ofhlusta á í nokkrar vikur og fæ svo leið á. Er ekki með neitt lag í gangi á repeat þessa dagana einhvernvegin.

Hvað er það skrítnasta sem þú manst eftir að hafa gert?

Skrítnasta, ég held ég hafi nú ekki gert neitt stórkostlega skrítið um ævina. Var hins vegar einu sinni stödd á veitingastað erlendis með dóttur mína sem er með fjölfæðuofnæmi, sósan á staðnum hentaði henni ekki en við vorum nú með okkar eigin, og pöntuðum pizzu með engri sósu og engum osti en með skinku. Þjónninn horfði á okkur og spurði svo þið viljið fá eintóma pizzu með skinku ? Hann hélt öruglega að við værum stórskrítin 🙂

Hefur þú átt gæludýr?

Ég á tvo hunda, þá Móa og Míó. Síðan átti yngsta dóttir mín það til að leika allskonar dýr hvert sem við fórum, á tímabili var hún alltaf hæna.

Hver er síðasta bókin sem þú last?

Ætli það hafi ekki verið inngangur að skipulagsrétti, ég les víst fátt annað en námsbækur þessa dagana.