Skip to main content
FréttViðtal

Fólkið í ÖBÍ: Unnur Hrefna Jóhannsdóttir

Unnur Hrefna Jóhannsdóttir situr í kjarahópi ÖBÍ réttindasamtaka. Hún er viðmælandi dagsins í viðtalsröðinni Fólkið í ÖBÍ, þar sem tekin eru viðtöl við fólk innan bandalagsins með bæði léttum spurningum og spurningum sem varða málefni fatlaðs fólks.

Hvers vegna starfar þú í réttindabaráttu fatlaðs fólks?
Mér blöskruðu fordómarnir og fáfræðin sem ég fann fyrir í garð fólks með geðraskanir og öryrkja og fannst ég bara þurfa að leggja eitthvað til málanna. Ég byrjaði því að skrifa greinar nokkuð reglulega í Morgunblaðið um þessi málefni og geri enn. Kjarahópurinn hafði síðan samband við mig og bað mig um að vera með erindi á málþingi þeirra sem bar yfirskriftina: „Ég ætla að verða öryrki þegar ég verð stór.“ Ég bauð mig síðan fram til starfa í kjarahópnum og er þar enn fjórum árum síðar. Mér finnst starfið í málefnahópnum bæði fræðandi og félagsskapurinn skemmtilegur enda skarpt fólk á ferð sem ég er alltaf að læra af. Það finnst mér nefnilega skemmtilegt – að læra.

Hvaða þrjú mál er mikilvægast að bæta í málaflokki fatlaðs fólks á Íslandi?
Kjörin, kjörin og kjörin enn og aftur. Það er svo margt sem ávinnst með því að bæta kjör öryrkja, einfalda kerfið og gera það gegnsærra. Eðlileg hækkun grunnbóta og með því að draga úr skerðingum gerir öryrkjum betur kleift að fóta sig á húsnæðismarkaði og velja sér kosti sem henta þeim sem. Heilbrigðismálin er annar málaflokkur sem stendur öryrkjum nærri, því það þurfa þeir oftast að nota meira en heilbrigðir. Þar þarf að draga úr útgjöldum öryrkja.

Ef þú værir forsætisráðherra í einn dag, hvað myndirðu vilja gera?
Ég myndi bæta kjörin, laga misgengi örorkulífeyris við lágmarkslaun og atvinnuleysisbætur en hann hefur dregist mikið aftur úr síðustu árin. Þá myndi ég hækka örorkulífeyri í takt við reglulegar launahækkanir í þjóðfélaginu, bæði prósentutölur og eingreiðslur ef slíkar eru. Ég myndi einnig leggja grunn að og byrja að byggja upp fjölbreytt húsnæðisúrræði fyrir öryrkja sem gerði þeim kleift að velja sér búsetu. Loks myndi ég gera alla heilbrigðisþjónustu fyrir öryrkja gjaldfrjálsa og sérstaklega skoða aðstæður öyrkja á landsbyggðinni.

Hvert er þitt helsta áhugamál?
Fólk, fólk og fólk – ég er forvitin að eðlisfari og veit af starfi mínu sem blaðamaður að hver einasta manneskja á sér sögu, áhugaverða sögu, sögu sem ég hef stundum fengið að segja. Ég er sem sagt forvitin um fólk, hvaðan það kemur, hvað hefur áhrif á það og hvert það er að fara svo fá eitt sé nefnt. Maður er manns gaman segir máltækið! Og mér finnst gaman að vera með fólki …

Hvað er uppáhalds lagið þitt?
Come Together með Bítlunum og bara flest lög með þeim og John Lennon.

Hvað er það skrýtnasta sem þú manst eftir að hafa gert?
Ég geri sjaldnast eitthvað mjög skrítið – ég er frekar mikil „mainstream“ manneskja – ef mig langar að gera eitthvað, þá veit ég að fleiri hugsa eins og það verður vinsælt – og þar sem ég forðast öngþveiti, þá sleppi ég því bara. En það skrítnasta sem ég hef eflaust gert er að borða súrsaða selshreifa þegar ég var krakki, og að þykja þeir góðir, en það var lenska í minni sveit og þá fannst engum skrítið að leggja sér þá til munns.