Skip to main content
Frétt

Framfærsla fólks í húfi

By 29. ágúst 2016No Comments

Ellen Calmon formaður ÖBÍ var í viðtali hjá Bylgjunni í bítið í morgun. Þar sagði hún að drög að frumvarpi um breytingar á almannatryggingum, þar sem ætti að hefja „samstarfsverkefni“ um starfsgetumat í janúar 2017 væri ábyrgðarlaust því um væri að ræða þróunarverkefni þar sem framfærsla fólks væri í húfi. Ekki væri um að ræða samstarf af hálfu ÖBÍ.

Ellen benti á að ÖBÍ hefði gert athugsemdir við frumvarpsdrögin. Uppfylla þurfi ýmis skilyrði áður en innleiðing starfsgetumats geti hafist. Lögfesta þurfi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, setja þurfi lög sem banni mismunun á vinnumarkaði og gera þurfi breytingar á almannatryggingum sem tryggi að allir lífeyrisþegar geti framfleytt sér og lifað mannsæmandi lífi í íslensku samfélagi.

Ellen benti einnig á mikilvægi þess að treysta þyrfti grunnstoðirnar í íslensku samfélagi: heilbrigðiskerfið, menntakerfið og félagslega kerfið. Viðtalið má heyra hér.

Í fréttum RÚV fyrir helgi var fjallað um að öryrkjum með 75% örorku hefði fjölgað á Íslandi um tæplega 1.000 á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Í frétt RÚV sagði Ellen að það segði fólki að stjórnvöld hefðu ekki forgangsraðað fjármunum rétt. Fréttina á RÚV má sjá hér.