Skip to main content
Frétt

Framkvæmdastjóraskipti hjá Örtækni

By 15. nóvember 2021No Comments
Jónas Páll Jakobsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Örtækni frá og með 1. nóvember 2021. Örtækni er í eigu Öryrkjabandalags Íslands og rekið á að ábyrgð þess.

Þorsteinn Jóhannsson lét af störfum á sama tíma eftir 28 ára farsælan feril sem framkvæmdastjóri félagsins. Þorsteinn hefur auk starfs síns hjá Örtækni gegnt fjölda trúnaðar starfa í þágu Öryrkjabandalagsins, er honum þakkað sérstaklega fyrir góð störf í nær þrjá áratugi fyrir Öryrkjabandalag Íslands.

Jónas Páll hefur víðtæka reynslu af fjármálum og rekstri fyrirtækja, hann hefur síðastliðin 15 ár starfað hjá Arion banka og forverum hans við fjármögnun og þjónustu við fyrirtæki. Jónas Páll er menntaður viðskiptafræðingur og með MBA gráðu frá Háskóla Íslands.

„Ég er fullur tilhlökkunar að ganga til liðs við Örtækni þar sem starfar góður hópur fólks með mikla og góða reynslu og þekkingu. Starfsfólk Örtækni er þekkt fyrir að veita framúrskarandi þjónustu og vera lausnamiðað, Örtækni byggir á gömlum grunni og verður afar spennandi að leiða gott félag til framtíðar“ segir Jónas Páll.

Starfsemi Örtækni er nokkuð fjölbreytt en Örtækni vinnur með mörgum af framsæknustu fyrirtækjum landsins og þjónustar öll helstu tækni- og iðnfyrirtæki á Íslandi. Örtækni setur saman og býr til allar gerðir tölvu- og netkapla auk þess að vera með mikið úrval af tengibúnaði fyrir tölvu- og tæknibúnað af öllum stærðum og gerðum. Stór hluti starfseminnar er einnig samsetning á flóknum búnaði fyrir hin ýmsu fyrirtæki, nefna má Vaka fiskeldiskerfi, Landsvirkjun, Marel, Össur, Johan Rönning og Farandice.

Örtækni er einnig með í sölu hug- og vélbúnað fyrir fatlað fólk og ræstingadeild sem sér um daglegar ræstingar fyrir Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Brynju leigufélag.

Hjá Örtækni starfa 30 manns.