Skip to main content
Frétt

Fyndin og kraftmikil sýning

By 26. febrúar 2018No Comments

Þetta er kraftmikil sýning og fyndin þar sem stjörnur úr Halaleikhópnum fara á kostum. Þetta segir Árni Hjartarson í ítarlegri og mjög jákvæðri gagnrýni um uppfærslu Halaleikhópsins á verknu Maður í mislitum sokkum.

Þeir sem séð hafa segja að ekki aðeins sé líf og fjör í skemmtilegri sýningu, heldur sé jafnframt fólgin í henni skörp samfélagsádeila. Aðeins tvær sýningar eru eftir, svo nú fer hver að verða síðstur að tryggja sér miða.

Fötlun er styrkur

Árni Hjartarson segir ávallt vera sérstaka stemningu og stíl yfir sýningum Halaleikhópsins. Tvennt hafi þessi áhrif. Sýningarsalurinn sem sé allur á breiddina og svo leikhópurinn sjálfur. Fötlun og hjólastólar verði að styrkleika en alls ekki hömlun, þrátt fyrir að einhverjir gætu haldið það.

Maður í mislitum sokkum er eftir Arnmund S. Backman og var fyrst sett á svið í Þjóðleikhúsinu árið 1998. Þröstur Guðbjartsson leikstýrir.

Leikritið fjallar um ekkju sem býr í eldriborgara blokk. Dag einn er hún kemur út úr Bónus situr ókunnur maður í farþegasætinu i bílnum hennar. Maðurinn veit ekki hvað hann heitir, hvar hann býr eða hvert hann er að fara en hann er í mislitum sokkum. Af ótta við almenningsálitið ákveður ekkjan að taka hann með sér heim. Vinkonur hennar og eiginmenn þeirra fléttast inn í málið með tilheyrandi vandræðagangi. Úr þessu tvinnast síðan kostuleg og bráðskemmtileg atburðarás með litríkum karakterum, sýning stútfull af orku og leikgleði.

Þetta stykki á erindi til allra, atburðir sem gerast í þjóðfélaginu er fólk eldist eru hér settir upp á skondinn og hnitmiðaðan hátt. Þarna er vel hægt að hlæja og gráta.

Óvæntar bardagasenur

Árni Hjartarson segir í umfjöllun sinni að leikstjórinn nálgist verkið með nýstárlegum hætti. Í uppfærslunni sé bæði að finna dans- og söngatriði og jafnvel bardagasenur. Það komi á óvart, þar sem sumir leikarar eru í hjólastól, en gangi fullkomlega upp og setur „fútt“ í sýninguna.

Hann segir sýninguna kraftmikla og fyndna, þar sem gamlar stjörnur úr Halaleikhópnum fara á kostum. Hann nefnir til dæmis þær Hönnu Margréti Kristleifsdóttur og Sóleyju Björk Axelsdóttur sem leika „góðhjartaðar konur sem kunna svo dæmalaust vel við vörpulega karlmenn. Kristinn Sveinn Axelsson leikur hins vegar karl sem ekki er auðvelt að kunna vel við og gerir það af innlifun. Konu hans leikur Herdís Ragna Þorgeirsdóttir og hún lætur óbeit sína á eiginmanninum ganga yfir allt karlkynið og sýnir það á afar sannfærandi máta. Hlynur Finnbjörnsson leikur manninn á mislitu sokkunum á óborganlegan hátt, er alveg eins og auli þegar hann er í þeim gírnum en breytist síðan í virðulegan betri borgara þegar minnisleysið rjátlast af honum. Alexander Ingi Arnarson, ungur maður og hraustlegur, er í hlutverki gamlingja sem gengið hefur í gegn um alla öldrunarsjúkdóma læknisfræðinnar og fer létt með að leika 50 ár upp fyrir sig. Margrét Eiríksdóttir og Stefanía Björk Björnsdóttir leika dætur mannsins á mislitu sokkunum. Þær eru fulltrúar yngri kynslóðarinnar, óþolandi frekjudósir, snobbaðar og ágjarnar. Svona er persónugalleríið og það er leikið á fullu, raddbeitingin ekki spöruð, dansað, duflað og slegist. Það er engin lognmolla í lífi eldri borgaranna.“

Örfá sæti laus

Aðeins tvær sýningar eru eftir á uppfærslu Halaleikhópsins á Maður í mislitum sokkum. Sýningarnar verða föstudaginn 2. mars kl. 20:00 og sunnudaginn 4. mars kl. 17:00. Á vef leikhópsins segir að aðeins örfá sæti séu laus. Sýnt er í Sjálfsbjargarhúsinu Hátúni 12, 105 Rvík. Gengið er inn að norðanverðu um austurinngang þar sem stendur Sundlaug og dagvist fyrir ofan dyrnar.