Skip to main content
AðgengiFrétt

Fyrstu fyrirtækin fá merki Góðs aðgengis í ferðaþjónustu

Reykjanesfólkvangur

Sky Lagoon, Bakland að Lágafelli og Loft Hostel og Dalur Hostel undir merkjum HI Iceland- Farfuglar, eru fyrstu fyrirtækin til að hljóta merki verkefnisins Gott aðgengi í ferðaþjónustu.

Verkefnið er fræðslu og hvatningarverkefni á vegum Ferðamálastofu, unnið í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sjálfsbjörg og ÖBÍ réttindasamtök. Tilgangurinn er að bæta aðgengi í ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk.

Í því skyni er ferðaþjónustuaðilum á Íslandi boðið upp á verkfæri og leiðbeiningar til að bæta aðgengismál markvisst. Verkefnið, sem er sjálfsmat, byggir á trausti og á vilja ferðaþjónustuaðila til að sýna ábyrgð í verki.

Sjá nánar á vef Ferðamálastofu

Fyrirtækin sem nú hafa fengið merki verkefnisins hafa hugað að margvíslegum þáttum er varða gott aðgengi fyrir fatlaða og hafa gert nauðsynlegar ráðstafanir til að uppfylla viðmið Góðs aðgengis. Má þar nefna upplýsingar á vefsíðu, atriði er varða aðkomu utanhúss og bílastæði, aðbúnað á snyrtingum og herbergjum, merkingar, móttöku- og veitingarými, fræðslu til starfsfólks og fleira.

ÖBÍ réttindasamtök fagna því að fyrstu fyrirtækin hafi nú fengið merki verkefnisins og óskaa forsvarsmönnum og starfsfólki Sky Lagoon, Baklands að Lágafelli, Lofts Hostels og Dals Hostels til hamingju. Um leið hvetur ÖBÍ önnur ferðaþjónustufyrirtæki til að kynna sér verkefnið og taka þátt.