Skip to main content
Frétt

Gæðaviðmið tekin upp um þjónustu við fatlað fólk

By 20. ágúst 2020No Comments
Gæðaviðmiðin taka mið af þeim alþjóðaskuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir og lagaumhverfi byggt á þeim. Ber þar fyrst að nefna samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem undirritaður var fyrir Íslands hönd í mars 2007. Samningurinn var fullgiltur haustið 2016 og í október 2018 tóku gildi breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og ný lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi þjónustuþarfir sem miða meðal annars að því að styðja við fullgildingu hans.

Viðmiðin taka til þeirrar þjónustu sem fatlað fólk fær samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011 og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.

Viðmiðin eru í fyrstu persónu, þar sem útgangspunkturinn er að það er notandinn sem metur þjónustuna sem hann fær.

Þau skiptast í fjóra yfirflokka, sem hver og einn skiptist svo í nokkra undirflokka. Yfirflokkarnir eru:

  1. Þjónustan sem ég fæ gerir mér kleift að lifa sjálfstæðu lífi.
  2. Ég tek þátt í að móta þjónustuna sem ég fæ.
  3. Ég ber traust til þeirra sem veita mér þjónustu.
  4. Þjónustan sem ég fæ er örugg og áreiðanleg.

Undir hverju gæðaviðmiði eru fjórar samræmdar meginreglur, sem byggja á grundvallarmannréttindum eins og þau birtast í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og lögum, og skulu vera grundvöllur þjónustunnar. Þær eru eftirfarandi:

Samfélagsleg þátttaka:

Ég fæ þjónustu sem kemur í veg fyrir félagslega einangrun og gerir mér kleift að taka þátt í samfélaginu til jafns við aðra samkvæmt óskum mínum.

Heildarsýn og velferð:

Velferð mín er höfð að leiðarljósi við ákvörðun og framkvæmd þjónustu, sem er byggð á heildarsýn og einstaklingsbundnu mati á þörf og í samráði við mig.

Jafnræði og virðing:

Þjónusta við mig er veitt af virðingu og án mismununar. Ég get tekið ákvarðanir í eigin lífi og sjálfræði mitt og réttur til einkalífs eru virt.

Gæði þjónustu:

Ég get treyst því að ég fái þjónustu sem hentar mér þegar ég þarf á henni að halda. Þjónustunni er vel stýrt og við framkvæmd hennar er velferð mín höfð að leiðarljósi. 

Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar birtir gæðaviðmiðin en þau voru unnin í náinni samvinnu við helstu hagsmunaaðila í málaflokknum. Að vinnunni komu auk fulltrúa stofnunarinnar Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Landssamtökin Þroskahjálp, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök félagsmálastjóra, velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Öryrkjabandalag Íslands.

 

Hér er að finna bæklinginn í held sinni.