Skip to main content
Frétt

Gerendur sjaldnast sóttir til saka

By 19. janúar 2021No Comments
Rannsóknir um ofbeldi gagnvart fötluðu fólki sýna að gerendur eru sjaldnast sóttir til saka, hvað þá sakfelldir. Reyndar er niðurstaða rannsókna sú að þeir sem beita fatlað fólk ofbeldi, eru líklegri til að hljóta skilorðsbundna dóma en þeir sem beita ófatlað fólk ofbeldi. Í nýlegri skýrslu Ríkislögreglustjóra er einnig ítrekað mikilvægi þess að fötlun brotaþola sé skráð hjá lögreglu við rannsókn máls.

Skýrslan kom út síðsumars 2020 og reynir að ná heildar yfirsýn yfir málaflokkinn. Alvarlegasta birtingarform mismununar og félagslegrar undirokunar fatlaðs fólks á Íslandi er ofbeldi af ýmsum toga. Fyrirliggjandi kannanir benda til þess að í meirihluta tilvika séu gerendur ofbeldis gagnvart fötluðu fólki ekki sóttir til saka hvað þá dæmdir. Skýrslunni er ætlað að bregða ljósi á ofbeldi gegn fötluðum á Íslandi í því augnamiði að greiða fyrir stefnumörkun í málaflokknum. Horft er til þess ofbeldis sem fatlaðir verða fyrir á heimilum sínum eða á dvalar- og hjúkrunarstofnunum. „Skýrslan nær því ekki til tilviljanakennds ofbeldis sem fatlaðir kunna að verða fyrir t.a.m. á götu úti eða annarra átaka en það er í samræmi við nálgun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Erlendar rannsóknir sem sagt er frá í skýrslunni styðjast einnig við skilgreiningu WHO. „

Rannsóknir sýna að fatlað fólk er líklegra til að verða fyrir ofbeldi en ófatlað fólk. Ungar fatlaðar konur eru í sérstökum áhættuhóp, þar sem þær eru líklegri til að verða fyrir kynferðisbroti. Norsk rannsókn sem skýrslan vitnar til, sýnir að þar í landi er gerandinn líklegri til að hljóta skilorðsbundinn dóm, en aðeins 10% ofbeldismála þar sem brotaþoli er fatlaður, lýkur með óskilorðsbundnum dómi.

Í skýrslunni kemur jafnfram fram að þó ýmsar rannsóknir hafi verið gerðar á málaflokknu, líða þær fyrir að gögn eru af skornum skammti. Gagnagrunnur lögreglu gerir ekki ráð fyrir að skráð sé í hann hvort brotaþoli sé fatlaður, og nauðsynlegt að mati skýrsluhöfunda að gra bragarbót þar á, án þess að fara í bága við persónuverndarsjónarmið.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, leggur nokkrar skyldur á aðildarríkin, í þá átt að vernda fatlað fólk fyrir ofbeldi.

Þar segir m.a. í 16. grein: „Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, m.a. með hliðsjón af kynbundnum þáttum slíkra athafna.“

Mikilvægt er að Alþingi lögfesti samninginn, en ályktun þess efnis var samþykkt á Alþingi vorið 2019, um lögfestingu samningsins eigi síðar en 13. desember 2020. Sú dagsetning rann upp án þess að nokkuð hefði verið gert í þá átt. 

Ríkislögreglustjóri telur mikilvægt í ljósi þess sem fram kemur í skýrslunni, að „talsverðra breytinga sé þörf standi vilji til þess að fá fram upplýsingar um umfang vandans á Íslandi og rannsaka brot gegn fötluðum líkt og t.a.m. Norðmenn hafa gert og sagt var frá að framan.“