Skip to main content
Frétt

„Get ekki hugsað mér að búa á Íslandi“

By 13. nóvember 2018No Comments
Spegillinn á RÚV fjallar um álit Umboðsmanns Alþingis um að ákvörðun Tryggingastofnunar um örorkulífeyri þeirra sem búið hafa í öðru EES-landi eigi ekki stoð í lögum. Breytingar gætu varðað hundruð öryrkja. Kona sem metin var með fulla örorku og hafði búið í Danmörku í fimm ár átti einingus rétt á rúmlega fjórðungi af fullum bótum. Hún leitaði til Umboðsmanns Alþingis. Fjallað hefur verið um álitið hér á vef ÖBÍ, en álitið er að mati bandalagsins áfellisdómur yfir vinnubrögðum Tryggingastofnunar.
 
Umfjöllun Spegilsins fer hér að neðan, en fjallað er ítarlega um málið á vef RÚV:
 

„Get ekki hugsað mér að búa á Íslandi“

Sagt var frá því í Speglinum í síðustu viku að fjölmargir ellilífeyrisþegar fá skertan lífeyri vegna þess að þeir hafa ekki búið á Íslandi nógu lengi. Til að fá fullan lífeyri frá Tryggingastofnun þarf viðkomandi að hafa búið hér á landi í 40 ár. Sumir fá vissulegar bætur frá því landi sem þeir hafa líka búið og unnið í. Það á alls ekki við um alla. Þess vegna fá talsvert margir mjög skertar bætur.

Flóknar reglur um öryrkja

Sama regla gildir í raun um örorkulífeyri. Miðað er við 40 ára búsetuhlutfall frá 16 ára til 67 ára aldurs. Hins vegar eru reglurnar sem gilda, eða þær sem Tryggingastofnun, notar talsvert flóknari en hjá ellilífeyrsþegum. Einfalt dæmi er af manni sem hefur búið í Danmörku í 10 ár, flytur heim og verður öryrki eftir 10 ára búsetu. Hann er þá 36 ára og á 31 ár í 67 ára aldur. Hann næði því 41 árs búsetuhlutfalli og ætti að fá fullar bætur að mati Öryrkjabandalagsins. Hann fær hins vegar aðeins metnar 63% bætur. Reiknireglan er sú að vegna 10 ára búsetu í Danmörku eða öðru landi innan EES og 10 ára búsetu á Íslandi er búsetuhlutfallið metið 63% til frambúðar. Hann á sem sagt rétt á rúmlega hálfum bótum vegna  þessara 10 ára í Danmörku. Þetta dæmi gæti áttt við Jóhönnu Þorsteinsdóttur. Hún flutti 16 ára með foreldrum sínum til Danmerkur 2005. Þegar hún var 18 ára veiktist hún og varð óvinnufær vegna geðrænna vandamála. Hún ákvað að flytja heim til Íslands 2010.

„Það var vega þess að ég var ein í Danmörku og farin að veikjast mjög mikið. Ég vildi fara til Íslands og vera með fjölskyldu minni og fá aðstoð á Íslandi,“ segir Jóhanna.

Fékk aðeins fjórðung af bótum

Hún fékk þær upplýsingar að hún gæti ekki sótt um örorkulífeyri á Íslandi fyrr en eftir þriggja ára búsetu. Það gerði hún og fékk á meðan fjárhagsaðstoð fá sveitarfélaginu sem hún bjó í. 2013 var hún metin með 75% örorku sem þýðir að viðkomandi á rétt á fullum örorkulífeyri vegna þess að hann er óvinnufær. Vegna búsetu Jóhönnu í Danmörku  var greiðsluhlutfall örorkulífeyris hennar metið 47% af fullum bótum. Hún fékk jafnframt í tvígang neitun fá Danmörku um bætur þaðan.

„Ég reyndi að sýna Tryggingastofnun þær neitanir en svörin voru alltaf eins. Ég ætti samt bara að fá þetta hlutfall.“

Hún ákvað að sækja um bætur tvö ár aftur í tímann. Fékk synjun og kærði til  úrskurðarnefndar almannatrygginga.

„Ég vann það mál en það var í rauninni það versta sem gat gerst vegna þess að þá var fyrsti dagur örorkumats fluttur 2 ár aftur í tímann. Við það minnkaði búsetuhlutfallið mitt niður í 21 prósent,“ segir Jóhanna.

Leitaði til Umboðsmanns Alþingis

Svona virka reglurnar. Búsetuhlutfallið var orðið annað vegna þess að nú voru bæturnar reiknaðar frá 2011. Jóhanna sætti sig ekki við að standa í þessum sporum. Hún leitaði til umboðsmanns Alþingis. Hann komst að þeirri niðurstöðu að reiknireglur Tryggingastofnunar ættu sér ekki viðhlítandi lagastoð né heldur stoð í almannatryggingareglugerð Evrópusambandsins. Hann beinir þeim tilmælum til úrskurðarnefndar að taka mál Jóhönnu upp að nýju og miða niðurstöðurnar við álit sitt. Hann beinir líka þeim tilmælum til Tryggingastofnunar að leysa önnur mál í samræmi við álitið og að stjórnvöld taki málið til skoðunar. Umboðsmaður telur líka að reikna beri öll framtíðarár á Íslandi fram til 67 ára aldurs. Ef breytingar verða gerðar á reikniaðferðum vegna búsetuhlutfalls er ljóst að það mun ná til nokkuð margra öryrkja. Samkvæmt svari við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur, VG, í fyrrahaust voru um 780 öryrkjar með skert búsetuhlutfall vegna búsetu í öðrum EES löndum. Í bréfi Tryggingastofnunar frá 11. október kemur fram að stofnunin lítið á málið sem forgangsverkefni. Nauðsynlegt sé að kanna allar hliðar málsins áður en ráðist verður í breytingar. Jóhanna er flutt aftur til Danmerkur og segir í raun að hún hafi flúið frá Íslandi.

„Já, það er alveg hægt að segja það þannig. Það er rétt að ég flutti frá landinu vegna þessarar meðferðar. Ég get ekki hugsað mér að búa á Íslandi,“ segir Jóhanna

Hún segir að auk bótanna hafi verið erfitt að fá aðstoð innan geðheilbrigðiskerfisins. Hún hafi bæði fengið litla aðstoð og beinlínis ranga.

„Það er dálítið kaldhæðnislegt að hugsa sér að ég þurfti kannski hálft til eitt ár hérna í meðferð við réttum sjúkdómum til að komast aftur út á vinnumarkað.“

Fékk rukkun frá Tryggingastofnun

Jóhanna hefur náð bata og er nú að ljúka námi í rennismíði í Danmörku. Hún fékk nýverið bréf frá Tryggingastofnun um að hún þurfi að endurgreiða 180 þúsund krónur vegna tekna sem hún fékk. Hún er ósátt og telur að stofnunin hefði átt að bíða með innheimtuna þar til endurskoðun hafi farið fram vegna álits Umboðsmanns Alþingis.

„Þeir eru í raun að senda mér uppgjör út fram þessum forsendum sem er eiginlega búið að dæma ólöglegar í stað þess að bíða með að reikna þetta dæmi þar til komin er niðurstaða út frá áliti Umboðsmanns Alþingis,“ segir Jóhanna.