Skip to main content
Frétt

Gleðilega Hinsegin daga

ÖBÍ réttindasamtök óska öllum gleðilegra Hinsegin daga og lýsa fullum stuðningi við mikilvæga réttindabaráttu hinsegin fólks bæði á Íslandi og í heiminum öllum.

Yfirskrift hátíðarinnar í ár er „Baráttan er ekki búin“ og er það vel við hæfi í ljósi vaxandi fordóma og hatursorðræðu sem hefur gert vart við sig á undanförnum misserum, einkum í garð trans fólks. Þessi þróun er mikið áhyggjuefni og við henni þarf að sporna.

Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga, skrifaði um þessi mál í grein í tímariti Hinsegin daga. Þar segir eftirfarandi: „Neikvæðum ummælum fjölgar, aðkast eykst, ásakanir um innrætingu og klámvæðingu barna verða háværari og þannig mætti áfram telja. Þá hafa hér á landi verið stofnuð samtök, að erlendri fyrirmynd, með það að markmiði að reka fleyg í þá miklu samstöðu sem einkennt hefur hinsegin samfélagið svo árum skiptir.“

ÖBÍ réttindasamtök hvetja öll til þess að kynna sér dagskrá hinsegin daga og til þess að taka afstöðu með mannréttindum.

Dagskrána má sjá hér:
https://hinsegindagar.is/dagskra/