Skip to main content
AðgengiFrétt

Gott aðgengi, nýtt fræðslu- og hvatningarverkefni í aðgengismálum í ferðaþjónustu

By 28. október 2022No Comments

Verkefnið Gott aðgengi var kynnt á málstofu Ferðamálastofu, ÖBÍ réttindasamtaka, HMS og Sjálfsbjargar í gær. Verkefnið snýst um að bæta aðgengi fatlaðs fólks í ferðaþjónustu, enda ætti að vera sjálfsagður hluti af starfsemi hvers fyrirtækis að tryggja aðgengi fyrir öll.

Þessu verkefni er því ætlað að hjálpa fólki og fyrirtækjum í ferðaþjónustu að taka á móti fötluðu fólki svo þjónustan sé í samræmi við þarfir þess stóra hóps. Verkefnið sem er í formi sjálfsmats byggir að stærstum hluta á byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem hefur það m.a. að markmiði að tryggja aðgengi fyrir alla.

Sjálfsmatið nær til starfseminnar allrar, t.d. þjálfunar starfsfólks, aðstöðu innan og utandyra auk búnaðar sem þarf að vera til staðar.

Fyrirtæki sem telja sig uppfylla kröfur um aðgengismál verða auðkennd sérstaklega í gagnagrunni Ferðamálastofu sem er nýttur víða til upplýsingagjafar um ferðaþjónustuaðila hér á landi.

„Til að byrja með eru í boði þrjú mismunandi merki; eitt sem táknar aðgengi fyrir fatlaða (hreyfihamlaða), annað fyrir sjónskerta og blinda og það þriðja fyrir heyrnarskerta og heyrnarlausa. Birting merkjanna, t.d. á vef fyrirtækisins, er yfirlýsing eða loforð til viðskiptavina um að aðgengi fyrir fatlaða sé fullnægjandi hjá fyrirtækinu.“ segir Ferðamálastofa á vef sínum.

Málstofa gærdagsins heppnaðist glæsilega. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hélt ávarp og Jóhann Viðar Ívarsson, greinandi hjá ferðamálastofu, ræddi um tækifæri til tekjuauka fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. Þær Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir formaður Sjálfsbjargar, Harpa Cilia Ingólfsdóttir, sérfræðingur hjá HMS, og Áslaug Briem, verkefnastjóri hjá Ferðamálastofu, kynntu verkefnið sjálft. Þá hélt Ósk Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar kynningu á Travable og Römpum upp Ísland og Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ átti lokaorðin.