Skip to main content
Frétt

Greiðslur miðist við umönnun

By 22. febrúar 2018No Comments

Starfshópur sem fer yfir lög um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og umönnunargreiðslur vilja einfalda fyrirliggjandi kerfi. Í nýju kerfi verði lögð aukin áhersla á umönnun í stað læknisfræðilegrar greiningar. Gildandi kerfi hefur verið gagnrýnt fyrir einmitt það að vera of flókið og taka heldur mið af sjúkdómsgreiningu heldur en þörf barna fyrir umönnun. 

Óskað eftir umsögnum

Velferðarráðuneytið hefur birt til umsagnar áfangaskýrslu með tillögum starfshóps sem vinnur að endurskoðun löggjafar um fjárhagslegan stuðning til fjöskyldna fatlaðra og langveikra barna. Frestur til að skila umsögnum er til 12. mars næstkomandi.

Starfshópurinn var skipaður í janúar 2015 af þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra. Formaður hópsins er Rakel Dögg Óskarsdóttir. Auk hennar eiga þar sæti Ágúst þór Sigurðsson og Hildur Sverrisdóttir, lögfræðingar í velferðarráðuneytinu, Ragna K. Marinósdóttir, fulltrúi Umhyggju – félagslangveikra barna, Friðrik Sigurðsson, fulltrúi Landssamtakanna Þroskahjálpar og Hjörtur Heiðar Jónsson, fulltrúi Öryrkjabandalags Íslands.

Starfshópnum var falið að fara yfir lög nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og ákvæði 4. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 sem kveður á um umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra barna. Gildandi kerfi hefur verið gagnrýnt fyrir að vera flókið og taka of mikið mið af sjúkdómsgreiningum barna fremur en þörf þeirra fyrir umönnun. Verkefni starfshópsins er að meta reynsluna af framkvæmd löggjafarinnar og þörf fyrir breytingar.

Breytt nálgun

Í áfangaskýrslu starfshópsins eru settar fram tillögur sem hafa það að markmiði að einfalda kerfið um fjárhagslegan stuðning til fjölskyldna fatlaðra og langveikra barna, auka áherslu á umönnun í stað læknisfræðilegrar greiningar og aðgreina greiðslur sem byggðar eru annars vegar á umönnun barnsins og hins vegar á kostnaði.

Nánar má lesa um tillögur starfshópsins á samráðsgátt stjórnvalda þar sem áfangaskýrslan er jafnframt birt til umsagnar. 

Þórdís Viborg er starfsmaður Málefnahóps um málefni barna hjá Öryrkjabandalagi Íslands. Hún tekur við athugasemdum, umsögnum og fyrirspurnum í netfanginu thordis@obi.is.