Skip to main content
Frétt

Guðríður heiðruð

By 22. janúar 2019No Comments

Guðríður Ólafs Ólafíudóttir, fyrrverandi formaður Sjálfsbjargar lsh. og félagsmálafulltrúi ÖBÍ, hlaut fálkaorðuna í upphafi árs, fyrir framlag sitt til velferðar- og mannúðarmála.

Guðríður hefur um áratuga skeið unnið ötullega að málefnum fatlaðs fólks. Hún var síðast félagsmálafulltrúi Öryrkjabandalags Íslands, frá 1998-2014. Hún hefur ávallt verið innan seilingar þegar bandalagið hefur þurft á kröftum hennar að halda og er þar enn. 

Guðríður hefur í gegnum tíðina gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Öryrkjabandalagið. Nefna má að hún var fulltrúi ÖBÍ í umferðarráði, fagráði Samgöngustofu um umferðarmál, fulltrúi í fagráði um útboð hjálpartækja og í Velferðarvakt félagsmálaráðuneytisins. Þá hefur hún setið í ýmsum stjórnum og verið formaður fjölda nefnda og aðgerðarhópa í gegnum árin fyrir hönd Öryrkjabandalagsins. Hún er formaður Námssjóðs Sigríðar Jónsdóttur frá því í febrúar 2016, en sjóðurinn styrkir öryrkja til náms.

Guðríður hóf störf fyrir Sjálfsbjörg árið 1966 og hefur síðan unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu fatlaðs fólks og annarra. Hún var um skeið formaður Sjálfsbjargar lsh. og árin 1988-1996 var hún framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, svo stiklað sé á stóru á fjölbreyttum starfsferli.

Öryrkjabandalag Íslands óskar Guðríði til hamingju með viðurkenninguna. Hún er vel að henni komin.