Skip to main content
FréttHeilbrigðismál

Hærri niðurgreiðslur á tannlækningum og fleiri breytingar um áramót

By 6. janúar 2022ágúst 31st, 2022No Comments
Um áramót urðu ýmsar gjaldskrárbreytingar líkt og venja er. Stærstu tíðindi eru 400 milljónir sem veitt er til aukinnar niðurgreiðslu tannlæknaþjónusta öryrkja, og auknar heimildir Sjúkratrygginga til styrkja vegna kaupa á hjálpartækjum fyrir fötluð börn með tvö heimili.

Engar hækkanir verða á komugjöldum í heilsugæslu um áramótin. Börn, aldraðir og öryrkjar greiddu engin komugjöld, en almenn komugjöld lækkuðu 1. janúar 2021 úr 700 krónum í 500 krónur og munu því verða óbreytt.  Gjöld sjúkratryggðra fyrir heilbrigðisþjónustu að öðru leyti hækka um 2,5% frá 1. janúar sl. í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. 

Frá og með 1. janúar sl. eykst greiðsluþátttaka sjúkratrygginga í almennum tannlæknakostnaði öryrkja og aldraðra úr 57% í 63% og kostnaður þeirra lækkar að sama skapi. 

Frá áramótum hækkar einnig greiðsluþátttaka sjúkratrygginga í nauðsynlegum tannlækningum vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Hingað til hafa endurgreiðslur þeirra sem áttu rétt á þeim, miðast við gjaldskrá sem ekki hafði verið uppfærð til verðlags frá árinu 2014. Með nýrri gjaldskrá samhliða rammasamningnum sem tók gildi 15. júlí 2021, hækkaði greiðsluþátttaka sjúkratrygginga í kostnaði allra sem áttu rétt á endurgreiðslu. Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna nauðsynlegra tannlækninga aldraðra og öryrkja hefur numið 80% en 50% hjá öðrum. Frá og með 1. janúar hækkar greiðsluþátttaka sjúkratrygginga hjá síðarnefnda hópnum í 80% til jafns við lífeyrisþega.

Þá hafa Sjúkratryggingum Íslands verið veittar auknar heimildir til styrkja vegna kaupa á hjálpartækjum fyrir fötluð börn með tvö heimili. Markmiðið er að gera heimilin jafnsett þannig að börnin eigi hjálpartækin vís á báðum stöðum.

Áður tóku styrkirnir til kaupa á sjúkrarúmum, dýnum, stuðningsbúnaði og hjálpartækjum tengdum salernisferðum. Nú er einnig heimilt að veita styrki til kaupa á sérstökum vinnustólum og sessum. Þann 1. júlí sl. hækkuðu fjárhæðir styrkja vegna kaupa á hjálpartækjum umtalsvert þegar styrkirnir voru færðir upp til verðlags en það hafði ekki verið gert frá árinu 2008.