Skip to main content
DómsmálFrétt

Hæstiréttur dæmir Freyju í vil.

By 30. október 2019ágúst 31st, 2022No Comments
Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm í morgun, fimmtudag, þess efnis að felldur er úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála frá 6. júní 2016, sem staðfestir ákvörðun Barnaverndarstofu um að hafna umsókn Freyju að gerast varanlegt fósturforeldri.

Í rökstuðningi sínum rekur Hæstiréttur „að samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum þeim sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Á grundvelli þessa ákvæðis hafa verið sett í almenn lög ýmis ákvæði um málefni fatlaðra, sbr. lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem leystu lög nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks af hólmi, en þau síðarnefndu giltu þegar atvik þessa máls urðu. Samkvæmt 1. gr. laganna höfðu þau að markmiði að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til að lifa eðlilegu lífi.

Af hálfu Íslands var samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks undirritaður 30. mars 2007 og fullgiltur 23. september 2016, en ákvæði hans hafa ekki verið leidd í lög hér á landi. Í 23. gr. hans kemur meðal annars fram að aðildarríkin skuli gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir í því skyni að útrýma mismunun gagnvart fötluðu fólki í öllum málum sem lúta að hjónabandi, fjölskyldu, foreldrahlutverki og samböndum, á sama hátt og gildi um aðra, til þess að tryggja megi tiltekin réttindi.“

Hæstiréttur segir jafnframt að mat á hæfni til að gerast fósturforeldri sé háð mati Barnaverndarstofu og að það mat verði að vera reist á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum og í því felist að gæta verði að þeim réttindum sem fötluðum og börnum eru tryggð með lögum. 

Þá segir í dómi réttarins: “ Í tilviki stefndu bar við það mat, sem fram fór, að líta sérstaklega til þess markmiðs fyrrnefndra laga um fatlaða, sem stoð eiga í stjórnarskrá, að henni yrðu við úrlausn máls skapaðar sem sambærilegastar aðstæður og ófötluðum einstaklingum án þess þó að raska þeim grundvallarhagsmunum barns að það sem því er fyrir bestu sé ávallt í fyrirrúmi.“

Í dómnum segir svo að sú ákvörðun Barnaverndarstofu að synja Freyju um leyfi til að gerast fósturforeldri á þessu stigi málsins, án þess að gefa henni áður kost á að sækja námskeið fyrir verðandi fósturforeldra sé í andstöðu við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hinn áfrýjaði dómur Landsréttar, sem hafði snúið við dómi Héraðsdóms, er því staðfestur.

Dóminn má lesa í heild sinni hér