Skip to main content
DómsmálFréttNPA

Hæstiréttur veitir áfrýjunarleyfi í NPA máli

By 19. nóvember 2021ágúst 31st, 2022No Comments
Hæstiréttur Íslands hefur ákveðið að veita Erling Smith áfrýjunarleyfi í máli hans gegn Mosfellsbæ, þar sem deilt var um skyldu sveitarfélagsins til að veita honum NPA þjónustu, þrátt fyrir að ríkið hefði ekki lagt af hendi þá fjármuni sem því bar samkvæmt lögum.

Héraðsdómur dæmdi Erling í vil í dómi sem féll 24. mars 2021, þar sem Mosfellsbæ var gert að greiða miskabætur og fallist á kröfu Erlings um viðurkenningu á skaðabótaskyldu. Með dómi Landsréttar var Mosfellsbær sýknaður, en í dómnum kom meðal annars fram að ekki yrði fallist á það með Erling að sveitarfélaginu hefði borið að semja við hann um notendastýrða persónulega aðstoð, óháð því hvort ríkið hefði efnt lögbundnar skyldur sem á því hvíldu um fjármögnun þjónustuúræðisins. Þá yrði ekki talið að Erling hefði sýnt fram á að hann hefði orðið fyrir fjártjóni vegna þessarar málsmeðferðar.

Í beiðni til Hæstaréttar um áfrýjun var af hálfu leyfisbeiðanda byggt í fyrsta lagi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi, þar sem hér sé um fyrsta dómsmálið þar sem reyni þau ákvæði laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, þar sem fjallað er um innleiðingu notendastýrðar persónulegrar aðstoðar. Þá er vísað til þess að niðurstöður málsins hafi fordæmisgildi varðandi heimildir sveitarfélaga til að synja einstaklingi um þjónustu á þeim grundvelli að ríkið hafi ekki veitt fjármagni til málaflokks, án tillits til aðstæðna hlutaðeigandi.

Þá er einnig vísað til þess í beiðni um áfrýjunarleyfi að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda, bæði með tilliti til þýðingar úrslita málsins fyrir hann, sem og þeirrar verndar sem hagsmunirnir njóta samkvæmt stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindareglum.

Hæstiréttur fellst á það að dómur í málinu kunni að hafa fordæmisgildi um þau atriði sem byggt er á í beiðnini og samþykkir áfrýjunarleyfi.

Áfrýjunarstefna hefur verið gefin út af réttinum, en dagsetning fyrirtöku liggur ekki fyrir.