Skip to main content
FréttHvatningarverðlaun

Haraldur Þorleifsson hlýtur Hvatningarverðlaun ÖBÍ 2021

By 3. desember 2021júní 6th, 2023No Comments
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, veitti Haraldi Þorleifssyni  Hvatningarverðlaun ÖBÍ 2021 við hátíðlega athöfn á alþjóðlegum degi fatlaðs fólks, 3ja desember.

Haraldur hlýtur verðlaunin fyrir verkefnið Römpum upp Reykjavík.

Hugmyndin að verkefninu kviknaði í huga Haraldar þegar hann sat í hjólastólnum fyrir utan verslun í Reykjavík, en fjölskylda hans inni í þeirri verslun. Á milli þeirra var ein trappa. Þessi eina trappa dugði til að Haraldur kæmist ekki inn með fjölskyldu sinni.

Upphaflega gaf hann sér eitt ár til að byggja 100 rampa í Reykjavík. Það markmið náðist á 8 mánuðum, og nú hefur hann sett markið enn hærra, eitt þúsund rampar um allt land.

Gott aðgengi er okkur öllum mikilvægt. Það er mörgum hulið hve það er mikilvægt. Þá er hollt að setja sig í spor Haraldar, og sjá fyrir sér allar tröppurnar sem hindra aðgang svo margra að samfélaginu.

Við afhendinguna sagði Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ meðal annars:

„Mér liggur mikið á hjarta, ný ríkisstjórn hefur litið dagsins ljós, væntingar mínar til hennar eru miklar. Eðlilega, það eru svo mörg og svo stór verkefni sem lúta að fötluðu fólki sem bíða leiðréttingar, verkefni sem ekki hefur verið sinnt í áraraðir.

Ég vænti þess að stjórnarsáttmálinn verði ekki bara falleg orð heldur fylgi þeim vörðuð leið út úr fátækt og fordómum. Að unnið verði í þágu fatlaðs fólks að þessu sinni. Áhersla verði sett á að bæta hag og stöðu okkar. Að fátækt verði útrýmt, og velsæld nái til jaðarsettasta hóps samfélagsins, að hann verði raunverulega tekinn með. En ekki skilinn eftir!“

Ávarp Þuríðar má finna í heild sinni hér.

Markmið Hvatningarverðlauna ÖBÍ er að veita viðurkenningu þeim sem hafa með verkum sínum stuðlað að einu samfélagi fyrir alla, sem endurspegla nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks.

Römpum upp Reykjavík fellur fullkomlega að tilgangi verðlaunanna.

Aðrir sem voru tilnefndir að þessu sinni voru Seres hugverkastofa, fyrir sjónvarpsþáttaröðina Dagur í lífi, Styrmir Erlingsson, fyrir hugrekki, kraft og einstakan metnað sem stafrænn leiðtogi hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og Reykjadalur fyrir að auðga framboð á frístundastarfi fyrir fötluð börn.