Skip to main content
Frétt

Heilbrigðisstefnan á að snúast um heilbrigði

By 1. mars 2019No Comments

Heilbrigðisstefna á Íslandi á að snúast um heilbrigði, ekki heilbrigðiskerfið. Horfa á til öryggis notenda heilbrigðisþjónustunnar en ekki hagkvæmni fyrir þjónustuveitendur. Þetta er ein megin gagnrýni ÖBÍ á drög að heilbrigðisstefnu sem lögð hefur verið fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar. ÖBÍ hefur sent Alþingi umsögn um málið.

Þörf á virku samráði

ÖBÍ telur mikilvægt að heildarstefna sé lögð til grundvallar heilbrigðisþjónustuinni og tekur undir sjö hornsteina þeirrar stefnu sem nú er lögð fram. Hins vegar ber hún þess merki að hafa eingöngu verið unnin af fagfólki og starfsmönnum hins opinbera. Bent er á það að samkvæmt Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að hafa eigi virkt samráð um mál af þessu tagi. Það á ekki að vera til skrauts. Þess vegna leggur ÖBÍ til að samráð verði skilgreint með víðari hætti en gert er í drögum að stefnunni. Virkt samráð við félög sjúklinga og notendur heilbrigðisþjónustu er lykilatriði. 

Í þessu samhengi má benda á að fólk, ekki síst fólk með langvinna sjúkdóma, býr yfir sérfræðiþekkingu í eigin málum og hefur skoðanir á þeirri þjónustu sem veitt er eða á að veita. Það nægir ekki að fólk sé upplýst um hvað kerfið ætli að gera í þeirra málum. Það verður að tryggja að notendur heilbrigðisþjónustu hafi rödd.

Helvítisgjáin

ÖBÍ tekur undir það markmið að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað. Ekki skiptir minna máli að þjónustukerfin tali saman. Fólk lendir oft í gjá milli aðila og það á ekki síst við um þá sem þurfa bæði að styðjast við félagsþjónustu sveitarfélaga og heilbrigðiskerfið sem er á forræði ríkisins. Þá er ýmist talað um „grá svæði“ eða „helvítisgjá“. Enginn vill lenda þar.

Óþarfa álag og kostnaður

ÖBÍ bendir á að íslensk heilbrigðisþjónusta sé of viðbragðsdrifin. Of lítil áhersla er og hefur verið lögð á gildi forvarna og lýðheilsu. Þetta endurspeglast í fjárlögum og fjármálaáætlunum stjórnvalda. Afleiðingin er oft óþarfa heilsumissir, álag á heilbrigðiskerfið og mikill kostnaður.

Í stefnunni kemur lítið fram um þetta. Ábyrgðin er einfaldlega sett í hendur heilsugæslunnar og Landlæknis. Allar tengingar skortir við lýðheilsustefnuna frá 2016 þar sem ábyrgð og fjármögnun lýðheilsustarfs hvílir á herðum sveitarfélaga og skóla. Það vantar áherslu á möguleg inngrip stjórnvalda þegar kemur að lýðheilsu, t.d. um skimanir, skattlagningu óhollustu og skýr lýðheilsumarkmið.

Aðgengi lykilatriði

Aðgengi að þjónustu þarf að vera greitt og til staðar. Í því samhengi þarf meðal annars að leggja áherslu á að stytta biðlista, jafna aðgengi út frá efnahagslegum og landfræðilegum þáttum og tryggja aðgengi fatlaðs fólks að heilbrigðisþjónustu.

Á öfugum enda

Það er einkennilegt að hvergi í stefnunni eru nefnd hjálpar- og stoðtæki. Þá er augljóst að öryggi notenda heilbrigðisþjónustu eigi að hafa að leiðarljósi en ekki hagkvæmni fyrir þjónustuveitendur. Hér er horft á málin frá öfugum enda.