Skip to main content
Frétt

Hjálpartæki hagur samfélagsins alls

By 10. október 2019No Comments
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, sagði á málþinginu Hjálpartæki – til hvers, sem málefnahópur ÖBÍ um heilbrigðismál stóð að, hjálpartæki væru mikilvægur liður í því að styðja fólk til sjálfstæðrar búsetu, og það væri allra hagur, ekki bara þeirra sem að búsetunnar njóta, heldur samfélagsins alls.

Ráðherra kom í máli sínu inn á mikilvægi þeirra vinnu sem starfshópurinn hefði unnið, og að það væru ákveðin fyrirheit sem fælust í því að skoða fyrirkomulag þessara mála í heild. Skýrslan sýni að það sé margt sem þurfi að bæta og hugsa upp á nýtt. Horfa þurfi á samfélagslegt virði þess að sjá fólki fyrir hjálpartækjum sem á þeim þurfi að halda:

„Vegna þess að hjálpartæki eru mikilvægur liður í því að styðja fólk til sjálfstæðrar búsetu, og það er allra hagur, ekki bara þeirra sem að búsetunnar njóta, heldur samfélagsins alls.“
 
Ráðherra sagði jafnframt að það væri eðlilegt að eftirspurn eftir hjálpartækjum ykist eftir því sem ríkari áhersla er lögð á að styðja fólk til að vera heima. 
 

„Það sama á við vegna stuðnings til atvinnuþáttöku og almennt til þátttöku fólks sem á sem flestum sviðum samfélagsins er algert grundvallarmál og í raun og veru snýst um réttindi fólks. Ég vil líka leyfa mér hér  á þessum fundi og tala ekki síður um réttindi samfélagsins til að njóta krafta allra, vegna þess að þetta virkar nefnilega í báðar áttir. Það virkar í báðar áttir að samfélagið njóti krafta, reynslu og innsýnar og þekkingar fólks á öllum sviðum samfélagsins og ekki sýður þeirra sem búa við fötlun.“

Svandís ræddi ekki einstakar tillögur starfshópsins en sagðist lítast vel á efni þeirra og að meðal þess sem mjög auðvelt væri að taka undir væri þörfin til að einfalda alla umsýslu með hjálpartæki, þ.e. viðmótið sem snýr að notendum þeirra. Greiðsluþátttakan væri einnig sérstakt áhugamál hennar, og að hún hefði skrifað það inn í heilbrigðisáætlun til ársins 2030 að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Nú væri verið að kostnaðarmeta einstakar aðgerðir til að auka og bæta jafnræði milli einstakra hópa. 

Starfshópurinn átti að hafa að leiðarljósi við vinnu sína samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Svandís sagði að þó ekki væri langt síðan samningurinn var fullgiltur, að:

„… við höfum séð nú þegar þessi gífurlegu áhrif sem hann hefur þegar haft á stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu hér og auðvitað víða um lönd. Við eigum ennþá eftir að innleiða þekkingu, við eigum eftir að innleiða viðhorf og við eigum eftir að innleiða úrbætur með tilstilli samningsins m.a. á því sviði sem er til umræðu hér í dag, en það er sannarlega þannig að þörfin er fyrir hendi og við vitu það sem hér erum að orð eru til alls fyrst.“