Skip to main content
Frétt

Hneisa að bregðast íbúum Bjargs

By 6. nóvember 2018No Comments

Yfirlýsing Geðhjálpar og ÖBÍ vegna afstöðu meirihluta Seltjarness

Hneisa að bregðast íbúum Bjargs

Landssamtökin Geðhjálp og Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) lýsa yfir furðu sinni á því að meirihluti Seltjarnarnesbæjar skuli ætla að bregðast þeirri lögbundnu skyldu sinni að veita sjö karlmönnum með flókna geðfötlun á Bjargi á Seltjarnarnesi þjónustu með því að beina því til ríkisins að semja við Hjálpræðisherinn eða annan aðila um rekstur vistheimilisins eins og fram kemur á heimasíðu bæjarins.

Við flutning málaflokks fatlaðs fólks yfir til sveitarfélaganna gleymdist að færa rekstur Bjargs til Seltjarnarness. Íbúarnir á Bjargi hafa því búið á stofnun í allt að 30 ár. Bylting hefur orðið í búsetumálum fatlaðs fólks á þeim tíma. Ekki er lengur gert ráð fyrir því að fatlað fólk búi á stofnun heldur í fjölbreyttum búsetuúrræðum með viðeigandi stuðningi á vegum viðkomandi sveitarfélags.

Lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir kveða skýrt á um að sveitarfélagi beri að veita fötluðum einstaklingum samfellda þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði félagsþjónustu, húsnæðismála, menntunar, vinnumarkaðar, öldrunarþjónustu og heilbrigðisþjónustu (3. gr.). Ekki er heldur lengur gert ráð fyrir því að sveitarfélög með færri íbúa en 8.000 þurfi að hafa samvinnu um þjónustu.

Enginn vafi leikur á að Seltjarnarnesbæ beri að taka við þjónustu við íbúa Bjargs eftir að Hjálpræðisherinn hættir rekstrinum um áramót. Raunar ætti bærinn að biðja íbúa Bjargs afsökunar á því að hafa ekki veitt þeim liðveislu, akstursþjónustu og aðra viðeigandi þjónustu um árabil.  Fjármagn ætti heldur ekki að standa í vegi fyrir því að Seltjarnarnesbær taki þjónustuna að sér enda myndi hún nánast alfarið vera greidd af ríkinu. Því til viðbótar ætti sveitarfélagið rétt á að innheimta leigu- og fæðiskostnað af íbúunum eftir að þeir hafa fengið greiddar örorkubætur í samræmi við búsetu í sveitarfélaginu. Hingað til hafa þeir aðeins fengið lágmarks  dagpeninga í tengslum við vistun á stofnun.

Geðhjálp og ÖBÍ  vísa því alfarið á bug að félagasamtök eins og Hjálpræðisherinn séu betur í stakk búin heldur en sveitarfélagið Seltjarnarnesbær til að sinna þjónustu við þennan viðkvæma hóp. Þvert á móti hefur sveitarfélagið á að skipa öflugum hópi fagfólks með þekkingu og reynslu til að veita þverfaglega fagþjónustu við íbúana.

Geðhjálp og ÖBÍ skora á Seltjarnarnesbæ að víkjast ekki lengur undan þeirri lögbundnu skyldu sinni að veita íbúum á Bjargi þjónustu. Að bregðast þessum íbúum sveitarfélagsins er hreinasta hneisa fyrir sveitarfélagið.

 

Virðingarfyllst,

Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Örykjabandalags Íslands