Skip to main content
AlmannatryggingarFréttHúsnæðismál

Húsnæðisstuðningur hækkaður við loka afgreiðslu fjárlaga

By 21. desember 2020ágúst 31st, 2022No Comments
Við loka afgreiðslu fjárlaga, síðastliðinn föstudag, var samþykkt að hækka húsnæðisbætur um 250 milljónir. Það þýðir að fyrirhuguð hækkun örorkulífeyris eftir áramót, mun ekki hafa þau keðjuverkandi áhrif að lækka húsaleigubætur eða sérstakar húsaleigubætur.

 

Strax og ríkisstjórnin hafði kynnt aðgerðir sínar í nóvember, þar sem fyrirhuguð var hækkun til þeirra sem engar aðrar tekjur hafa, var ljóst að þrýsta þyrfti á að tekju viðmið myndu hækka í kjölfarið. Ef það yrði ekki gert myndu þessar hækkanir í raun hverfa í vasa sveitarfélaganna. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, sendi bréf á félags og barnamálaráðherra, Ásmund Einar Daðason, þar sem þetta var lagt fyrir hann. Auk þess, lagðist verkalýðshreyfingin, ASÍ og BSRB vel á árarnar með okkur í þessu mikilvæga baráttumáli.

Í bréfinu var farið yfir þær miklu víxlverkanir greiðslna og skerðinga, sem eru orðnar svo miklar að illmögulegt er að hreyfa við nokkru til hækkunar, án þess að áhrif til lækkuna komi fram annars staðar.

Svo segir í bréfinu:

„Og það er vissulega raunin nú, hækkunin hefur gríðarleg áhrif á húsnæðisstuðning þeirra sem hans njóta.“

Breytingin sem var boðuð þýddi það að flestir myndu nú fara yfir tekjuviðmið um húsnæðisstuðning. Áhyggjur fólks fóru ekki framhjá ÖBÍ, og meira að segja heyrðust raddir um hvort hægt væri að afþakka þessa boðuðu hækkun. Þessum áhyggjum var komið til eyrna ráðherra í bréfinu: „Staðreyndin er, verði ekkert að gert, að stærsti hluti þessara uknu ráðstöfunartekna öryrkja hverfa í lækknun húsnæðisbóta. Af rúmlega 21 þúsund króna hækkun ráðstöfunartekna, munu 1.033 krónur sitja eftir hjá þeim sem hingað til hefur fengið óskertar húsnæðisbætur.“

Undir bréfið rituðu auk Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur, formanns ÖBÍ, þær Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Niðurstaðan liggur nú fyrir.

Samþykkt var tillaga um 250 millj. kr. hækkun framlags til húsnæðisbóta. Fjölgun viðtakenda á almennum markaði fyrstu 10 mánuði ársins 2020 nam tæpum 9% og 10,6 % milli áranna.

Auk þess var samþykkt um 100 millj. kr. tímabundna hækkun framlags til húsnæðisbóta. Í greinargerð með breytingartillögum segir:

„Á árinu 2021 munu tekjumörk tekjulágra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hækka um 6% en áður hafði verið gert ráð fyrir 3,6% hækkun, sbr. forsendur frumvarps til fjárlaga 2021. Auk þess urðu breytingar á örorkubótakerfinu árið 2019 sem ekki hefur verið tekið tillit til í húsnæðisbótakerfinu. Sú breyting sneri að hækkun framfærsluuppbótar. Svo að ekki komi til skerðingar á greiðslum húsnæðisbóta til þessa hóps, sem hefur engar aðrar tekjur en úr almannatryggingakerfinu, er nauðsynlegt að hækka frítekjumörkin um 11,93% frá því sem var árið 2020 í húsnæðisbótakerfinu. Áætluð heildarfjárvöntun vegna þessa er um 100 millj. kr., 30 millj. kr. vegna hækkunar tekjumarka úr 3,6% í 6% og svo 70 millj. kr. vegna leiðréttingar í tengslum við breytingar á örorkubótakerfinu árið 2019.“

Þetta þýðir að frítekjumörk hækka um rúmlega 11% nú um áramótin.

Í þessari töflu má sjá hvernig upphæðirnar breytast.

 

Fjöldi í heimili Frítekjumörk árstekna2020 Frítekjumörk mánaðartekna 2020 Frítekjumörk árstekna 2021 Frítekjumörk mánaðartekna 2021
1 4.020.975 335.081 4.500.677 375.056
2 5.318.064 443.172 5.952.509 496.042
3 6.226.026 518.836 6.968.791 580.733
4 eða fleiri 6.744.861 562.072 7.549.523 629.127

 

Tafla yfir útreiknuð tekjumörk sérstaks húsnæðisstuðnings í Reykjavík 2021

Fjöldi í heimili Neðri tekjumörk á ári Neðri tekjumörk á mánuði Efri tekjumörk á ári Efri tekjumörk á mánuði
1 4.500.677 375.056 5.625.847 468.821
2 5.952.509 496.042 7.440.636 620.053
3 6.968.791 580.733 8.710.989 725.916
4 eða fleiri 7.549.523 629.127 9.436.904 786.409

Tekið skal fram að hér eru settar fram útreikningar ÖBÍ á þeim upphæðum sem gætu orðið, ákveði Reykjavík að fylgja þessum hækkunum. Sú ákvörðun liggur ekki fyrir, og eru tölurnar settar fram með þeim fyrirvara, ásamt almennum fyrirvara um endanlega útreikninga ráðuneytis.

Þetta er ánægjulegur áfangi, því ljóst er að barátta ÖBÍ, með liðsinni verkalýðshreyfingarinnar, skilað árangri.