Skip to main content
Frétt

Hvað er heilsa?

By 6. maí 2018No Comments

Heilsa er vítt hugtak sem er skilgreint á mismunandi hátt út frá mismunandi sjónarhornum. Orðið „heilsa“ þýðir að vera „heill“ (whole), sem merkir að heilsa sé eitthvað sem snertir alla manneskjuna en ekki bara einstaka hluta hennar (Naidoo og Wills, 2016).

Heilsa hefur tvær algengar merkingar í daglegu lífi sem hægt er að flokka sem neikvæða og jákvæða. Hin neikvæða lýsing er að vera án sjúkdóma eða veikinda sem er skilgreining hins læknisfræðilega líkans innan Vestrænnar heilbrigðisþjónustu. Hin jákvæða lýsing á heilsu felur í sér hugtakið „well-being“ eða „vellíðan“ sem er notað til að lýsa því hvað gerir lífið gott og gefur okkur því huglæga sýn á heilsu. Hugtakið „vellíðan“ gefur okkur aðeins víðara sjónarhorn á hvað heilsa raunverulega er, annað en að vera laus við sjúkdóma eða önnur líkamleg mein (Naidoo og Wills, 2016).

Það eru ekki allir sammála um hvernig ber að skilgreina heilsu og því tel ég við hæfi að vísa til skilgreiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (World Health Organization) á heilsu, sem árið 1946 lýsti heilsu sem hámarki líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar vellíðanar, óháð því hvort fólk sé án sjúkdóma eða hafi fulla getu. Árið 1986 gaf síðan sama stofnun út þá yfirlýsingu að til þess að ná fullkominni vellíðan þyrfti fólk að geta tilgreint og fullnægt löngunum sínum og þörfum og um leið að vera fært um að takast á við þær aðstæður sem það býr við (Kristjana Fenger og Guðrún Pálmadóttir, 2011).

Þessi skilgreining á heilsu er frekar jákvæð og spannar vítt svið. Hún skilgreinir heilsu sem marga samverkandi þætti þar sem líkami, hugur og samfélag haldast í hendur. Einnig er athyglisvert að sjá að þessi skilgreining á heilsu er óháð því hvort fólk sé með sjúkdóma eða fulla getu, heldur er hún einstaklingsbundin skilgreining á heilsu og felst í vellíðan einstaklingsins, ákveðinni lífsgleði og/eða hamingju þar sem hver og einn uppfyllir langanir sínar og þarfir á sínum forsendum.

Heildræn sýn á heilsu

Með skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) að leiðarljósi getum við horft meira heildrænt á heilsu og séð að heilsa felur í sér margar víddir sem hafa sterk áhrif á hvor aðra. Ef við flokkum heilsu niður frá því sjónarhorni þá felur hún í sér líkamlega vídd, hugræna, tilfinningalega, félagslega, andlega og kynferðislega vídd (Naidoo og Wills, 2016).

Líkamleg heilsa tengist þá alfarið líkamanum, að vera líkamlega heilsuhraustur, líkamleg vellíðan. Hugræna heilsu er þá hægt að skilgreina á þá vegu að hafa jákvæðan tilgang og að trúa á sjálfan sig. Tilfinningaleg heilsa tilheyrir þá hæfileikanum að geta skilgreint tilfinningar sínar og þróað heilbrigð tilfinningasambönd og að finna að maður er metinn og elskaður. Félagsleg heilsa snýr þá að stuðningi frá umhverfinu og að því að vera virkur þáttakandi í því. Andleg heilsa er til að mynda getan til að stunda trúarlegar athafnir og að finna dýpri tilgang í lífinu sem hefur jákvæð áhrif á einstaklinginn. Kynferðislega heilsu er þá hægt að skilgreina sem getuna til að bera kennsl á kynferðislegar langanir sínar og að vera fær um að fullnægja þeim á heilbrigðan hátt (Naidoo og Wills, 2016).

Í stærra samhengi er hægt að horfa á heilsu í samfélagslegu samhengi, umhverfislegu og hnattrænu samhengi. Í samfélagslegu samhengi getur það hvernig samfélagið er byggt upp haft mikla áhrif á heilsu, þættir eins og húsaskjól, skortur á mat, fátækt eða óstöðugt umhverfi eru dæmi um slíkt. Umhverfislegir þættir sem geta haft áhrif á heilsu er til að mynda hreinlæti, veðurfar og aðgangur að hreinu vatni. Hnattræn heilsa felst þá í því að hugsa um plánetuna sem heild og tryggja stöðugleika fyrir framtíðina og komandi kynslóðir (Naidoo og Wills, 2016).

Læknisfræðilegt sjónarhorn á heilsu

Sú sýn og viðhorf til heilsu sem er hvað mest ríkjandi meðal heilbrigðisstétta miðast að mestu leyti að líkamlegu ástandi. Heilbrigðisstéttin notast við læknisfræðilegt líkan til að horfa á heilsu sem miðast að því að vera án sjúkdóma og/eða veikinda. Þess vegna má segja að sýn hins læknisfræðilega líkans innan heilbrigðisstéttarinnar á heilsu sé frekar þröng og hafi jafnvel frekar neikvætt sjónarhorn á heilsu, þar sem það er ávallt horft á það sem er að einstaklingnum, frekar en því sem er ekki að honum (Naidoo og Wills, 2016).

Læknisfræðilega líkanið skilgreinir heilsu sem algjörlega líffræðilega og að heilbrigðiskerfið sé hannað til að meðhöndla hina veiku. Með þetta viðhorf að leiðarljósi er einstaklingurinn sjálfur vandamálið sem þarf stöðugt að laga. Hið læknisfræðilega líkan á rætur sínar að rekja til Vestur Evrópu á Upplýsingaöld (Age of Enlightenment), þar sem raunhyggja og vísindi byrjuðu að ryðja sér braut sem vegur til þekkingar í stað trúarbragðanna sem höfðu í margar aldir verið ríkjandi þáttur í heimsmynd og þekkingu mannsins. Á sama tíma og margar uppfinningar litu dagsins ljós eins og smásjáin, þá varð líkami mannsins grundvöllurinn að vísindalegri þekkingu (Naidoo og Wills, 2016).

Ef heilsa snýst alfarið um líkamann eins og læknisfræðilega líkanið miðast við, þá þarf ekki mikið til þess að heilsa skerðist því hvert og eitt líkamlegt mein er þá skerðing á heilsu. Hið læknisfræðilega líkan hefur því frekar þrönga vélræna sýn á sjúkdóma, líkama og heilsu. Í því ljósi er hægt að sjá sjúkdóma sem einskonar bilun í vélinni (líkamanum) sem þarf að laga. Þar sem að sýn læknisfræðinnar á heilsu er frekar ópersónuleg, þá verður meðferðin sjálf frekar köld og hlutlæg, þar sem læknirinn lagar það sem er gallað eða óeðlilegt með aðgerð og/eða öðrum vísindalegum aðferðum sem snúa að líkamanum. Þar sem að læknisfræðilega líkanið á rætur sínar í vísindalegum aðferðum þá getur það aðeins meðhöndlað það sem er mælanlegt og/eða sýnilegt (Zigmond, 2012).

En sjúkdómar og veikindi eru ekki það sama, því fólk getur verið með sjúkdóma án einkenna eins og til að mynda krabbamein eða flogaveiki. Þess vegna geta allir verið með mein í líkamanum án þess að vita af því og upplifað þrátt fyrir það góða heilsu og vellíðan. Þannig að með þá staðreynd að leiðarljósi getur heilsa og vellíðan ekki bara verið bundin við sjúkdóma eða líkamann. Þegar einstaklingurinn hefur síðan fengið greiningu á sjúkdómi, þá er hægt að tala um skerðingu á heilsu eða tap á heilsu frá líkamlegu sjónarhorni.  Líkanið er mjög áreiðanlegt þegar kemur að líkamlegri heilsu en er minna áreiðanlegt þegar kemur að huglegum þáttum, félagslegum þáttum, tilfinningum og/eða umhverfi sem áhrifavalda á heilsu. Hægt er að mæla og skoða ákveðna hegðun sem hefur slæm áhrif á heilsu eins og ofnotkun áfengis, tóbaksnotkun, óhollt matarræði, ákveðna áráttuhegðun sem skemmir líkamann (óheilbrigðan lífsstíl) en aldrei innra tilfinningalíf einstaklingsins sem ýtir undir þá hegðun. Líkanið tekur ekki inn í þá umhverfis og félagslega þætti sem geta haft áhrif á heilsu (Zigmond, 2012).

Önnur gagnrýni sem hefur komið fram á læknisfræðilega líkanið er sú að lyfjameðferðir eru ekki alltaf eins og góðar og haldið hefur verið fram og geti beinlínis verið skaðlegar þegar kemur að heilsu: að aukaverkanir lyfja og ofnotkun þeirra leiði til heilsutaps. Bent hefur verið á að breytingar á aðstæðum fólks geti haft jákvæðari og betri áhrif á heilsu en lyfjameðferðir og að vegna hins neikvæða sjónarhorns á heilsu sé stuðlað að sjúkdómavæðingu þar sem einstaklingurinn sé alltaf eitthvað sem þarf að laga, eins og bilað tæki (Naidoo og Wills, 2016).

Læknisfræðilega líkanið hefur mikla kosti og er mjög þróað að því leyti að það stendur mjög svo framarlega í skilningi á líkamlegum sjúkdómum og í að meðhöndla þá með ágætum árangri. En harðasta gagnrýnin sem hið líflæknisfræðilega líkan hefur fengið er að vanmeta hið flókna samspil milli heilsu og sjúkdóma, og þá staðreynd að líkanið vanrækir algjörlega hina félagslegu og sálrænu þætti mannsins þegar kemur að heilsu (Germoy, 2014).

Félagsleg og umhverfisleg sjónarhorn heilsu

Til eru áhrifamiklar lýsingar frá fötluðu fólki sem segir frá því hvernig mismunun, skortur á mannréttindum og væntingum gerir því erfitt að lifa eðlilegu lífi. Þá er það viðhorf samfélagsins sem veldur því mestri vanlíðan og heilsutapi en ekki fötlun þeirra. Fólk tekur oft ekki mark á fötluðum einstaklingum og kemur fram við þá eins og börn sem veldur þeim miklum sársauka. Ef við horfum á heilsu í því samhengi, þá er heilsa ekki bara líkamlegt fyrirbæri, heldur einnig hugrænt og félagslegt. Ef einstaklingur með hreyfihömlun eða aðrar skerðingar getur lifað með sinni fötlun og finnur fyrir vellíðan í sínum líkama en viðhorf samfélagsins er orðin hindrun eða neikvæður áhrifaþáttur á heilsu hans, þá er ekki hægt að segja að heilsa sé einungis bundin við líkamann, heldur einnig við félagslegt umhverfi einstaklingsins. Þess vegna er greinilegt að viðhorf samfélagsins hefur neikvæð áhrif á heilsu (Snæfríður Þóra Egilson, 2011).

Félagsleg líkön af heilsu benda á að heilsa okkar verði fyrir áhrifum af mörgum mismunandi þáttum sem geta verið einstaklingsbundnir, mannlegir, félagslegir, umhverfislegir, pólitískir og efnahagslegir svo eitthvað sé nefnt.

Félagsleg nálgun á heilsu hvetur okkur til að kafa dýpra til þess að skilja heilsu. „Allt hefur áhrif á allt“ og það sem gerir fólk heilsuhraust getur aðeins verið skilið með því að horfa á einstaklinginn og samfélagið sem heild og þau samskipti og áhrif sem allt hefur á allt. Líkami, hugur og samfélag er því ein heild þegar kemur að heilsu frá hinu félagslega sjónarhorni (Stuart, 2015).

Frá félagslegu sjónarhorni er lagt meiri áherslu á að einstaklingurinn hjálpi sjálfum sér og eigi virka þátttöku í hinu félagslega umhverfi (Naidoo og Wills, 2016).

Læknisfræðilega líkanið gerir ekki ráð fyrir að stríðsátök, náttúruhamfarir, slys, mengun, fátækt og aðrir þættir í umhverfinu hafi áhrif á heilsu sem þeir vissulega gera á allan hátt. Heilbrigð skynsemi segir okkur að tengslin milli umhverfis og einstaklingsins virki á báða vegu og séu óaðskiljanlegir þættir þegar kemur að heilsu (Snæfríður Þóra Egilson, 2011).

Heilsa er ekki einungis bundin við líkamlegt ástand heldur alla þætti lífsins sem eru ávallt síbreytilegir. Heilsa er því afstætt hugtak sem inniheldur margar víddir sem erfitt er að binda við eitthvað eitt, en felst í vellíðan einstaklingsins á hverjum tíma fyrir sig og hans eigin viðhorfum til sjálfs síns og lífsins. Til þess að fá sem skýrustu mynd af heilsu þarf að skoða hana út frá heildrænu sjónarhorni, því það er orðið fullljóst að „allt hefur áhrif á allt“.

Einstaklingar sem eru með sjúkdóma eða einhverskonar færnisskerðingu virðast geta notið lífsins og upplifað vellíðan, hamingju og gleði. Þeir benda á að viðhorf samfélagsins hafi meiri neikvæð áhrif á heilsu þeirra en sú skerðing sem þeir lifa með. Fólk með skerðingu horfir ekki á sig sem fatlað heldur upplifir góða heilsu og vellíðan út frá sínum eigin viðhorfum.

 

Gísli Hvanndal Jakobsson

Nemandi við iðjuþjálfunarfræði við Háskólann á Akureyri

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimildaskrá

Embætti landlæknis. (e.d.). Heilsuefling. Sótt af https://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/heilsuefling/

Germoy, J. (2014). Imagining health problems as social issues. Í Germoy, J. (ritstjóri), Second opinion : an introduction to health sociology (bls. 5–22). Sótt af http://lib.oup.com.au/he/health/samples/germov5e_secondopinion_sample.pdf

Kristjana Fenger og Guðrún Pálmadóttir (2011). Iðja og heilsa. Í Guðrún Pálmadóttir og Snæfríður Þóra Egilson (ritstjórar), Iðja, heilsa og velferð: iðjuþjálfun í íslensku samfélagi (bls.26). Akureyri: Háskólinn á Akureyri.

Naidoo, J. og Wills, J. (2016). Foundations for Health Promotion (4. útgáfa) (kaflar 1-3). Elsevier.

Snæfríður Þóra Egilson (2011). Umhverfi og þátttaka. Í Guðrún Pálmadóttir og Snæfríður Þóra Egilson (ritstjórar), Iðja, heilsa og velferð: iðjuþjálfun í íslensku samfélagi (bls.68-69). Akureyri: Háskólinn á Akureyri.

Stuart, G. (2015, 2. júní). What are social models of health? [bloggfærsla]. Sótt af https://sustainingcommunity.wordpress.com/2015/06/02/social-model-of-health/

World Health Organization. (e.d.). About WHO. Sótt af http://www.who.int/about/en/

Zigmond, D. (2012, 14. apríl). The Medical Model—its Limitations and Alternatives. Sótt af http://www.marco-learningsystems.com/pages/david-zigmond/medical-model.htm