Skip to main content
Frétt

Hvað skerðir örorkugreiðslur?

By 22. september 2015No Comments
Grein Þorberu Fjölnisdóttur, verkefnastýru hjá ÖBÍ á visir.is
Þorbera Fjölnisdóttir, verkefnastýra ÖBÍ

Hún Hallgerður fékk fullt örorkumat við 26 ára aldur. Hún býr ein ásamt syni sínum, honum Snorra. Þar sem Hallgerður var í námi, hefur hún aldrei verið á vinnumarkaði og á því ekki rétt á greiðslum úr lífeyrissjóði. Hennar einu tekjur eru örorkugreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins (TR) og þær nema 218.884 krónum á mánuði eftir skatt. Meðlag er ekki reiknað inn í þessa upphæð.

Dag einn fer Hallgerður í sambúð með Þorgrími. Við það skerðast tekjur hennar, því hún missir heimilisuppbót og fær kr. 199.379 útborgaðar. Sonur hennar vex úr grasi og þegar Snorri verður 18 ára skerðast örorkugreiðslur hennar enn frekar, þar sem hún missir barnalífeyrinn og nú fær hún 172.516 kr. útborgaðar frá TR. Sonurinn býr þó enn þá heima og er á framfæri móður sinnar. Hallgerður fékk arf eftir frænku sína sem hún geymir á bankabók. Vextirnir af þeirri fjárhæð nema 3.000 kr. á mánuði. Við það lækka greiðslurnar frá TR enn frekar og eru nú 171.576 kr.

Hallgerður gerði tilraun til að fara á vinnumarkaðinn og fékk hlutastarf við afleysingar í sjoppu. Mánaðarlaun hennar voru kr. 50.000 (með skatti) og við það lækkuðu greiðslur TR enn á ný og fóru niður í 167.151 kr. Með tilkomu fjármagns- og atvinnutekna missti hún út framfærsluuppbót. Örorkugreiðslur TR til Hallgerðar hafa alls lækkað um 51.733 kr.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og kjaramál öryrkja

Í 28. grein samningsins er fjallað um viðunandi lífskjör og félagslega vernd. Samkvæmt henni viðurkenna aðildarríkin m.a. rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi og sífellt batnandi lífskjara. Bannað er að mismuna fólki vegna fötlunar. Raunveruleiki íslensks samfélags er hins vegar sá að bætur almannatrygginga hafa hvorki náð að halda í við verðlagshækkanir, almenna launaþróun né hækkun lægstu launa og er munurinn verulegur. Eins og við sjáum á dæminu um Hallgerði, þá eru upphæðir örorkugreiðslna mjög lágar og þær lækka við það að hún fari í sambúð, þegar barnið hennar verður 18 ára og þegar hún fær einhverjar aðrar tekjur. Hallgerði er því haldið í fátækt, gert að vera á framfæri maka síns og eiga enn erfiðara með að framfleyta syni sínum eftir að hann nær 18 ára aldri. Hallgerði er haldið í fátæktargildru af ríkinu.

Það er því brýnt að íslensk stjórnvöld fullgildi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem þau undirrituðu árið 2007. Ísland er ein fimm Evrópuþjóða sem ekki hafa enn fullgilt samninginn. Á heimasíðu ÖBÍ, www.obi.is, getur almenningur skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að fullgilda þennan mikilvæga mannréttindasamning nú á haustþingi 2015.

22. september 2015
Þorbera Fjölnisdóttir