Skip to main content
FréttHvatningarverðlaun

Hvatningarverðlaunin afhent

By 4. desember 2017september 8th, 2023No Comments

Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands 2017 voru veitt við hátíðlega athöfn á Hilton Nordica hótelinu í Reykjavík í dag að viðstöddu fjölmenni. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin, en þau voru veitt í þremur flokkum.

  • Hlín Magnúsdóttir hlaut verðlaun í flokki einstaklinga, fyrir brennandi áhuga og frumkvæði að fjölbreyttum kennsluaðferðum.
  • TravAble hlaut verðlaun í flokki fyrirtækja/stofnana, fyrir hönnun og þróun á smáforriti með upplýsingum um aðgengi.
  • RÚV hlaut verðlaun í flokknum umfjöllun/kynningar, fyrir að kynna og sýna þættina „Með okkar augum“ á besta áhorfstíma.

Þetta er í 11. sinn sem Öryrkjabandalagið stendur fyrir Hvatningarverðlaununum. Þau voru fyrst veitt árið 2007. Verðlaunin hafa verið veitt í tengslum við Alþjóðadag fatlaðs fólks 3. desember. Megintilgangur þeirra er að varpa ljósi á þá sem hafa með jákvæðum hætti stuðlað að einu samfélagi fyrir alla. Þrír voru tilnefndir í hverjum flokki.

Við verðlaunaafhendinguna fluttu erindi þau Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, Katrín Oddsdóttir, hæstaréttarlögmaður og starfsmaður málefnahóps Öryrkjabandalagsins um sjálfstætt líf, Bergþór Grétar Böðvarsson sem hlaut Hvatningarverðlaunin í flokki einstaklinga árið 2011 og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Forseti Íslands er verndari verðlaunanna. Þórunn Árnadóttir, vöruhönnuður, hannaði verðlaunagripinn.