Skip to main content
Frétt

Innistæðulaus fullyrðing

By 5. desember 2018No Comments

Forsætisráðuneytið kannast ekki við að kjör öryrkja hafi verið bætt um níu milljarða króna, þvert á fullyrðingar Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Ráðuneytið segir í svari til Öryrkjabandalags Íslands að kjarabætur nemi um 400 milljónum króna í ár, og að 2,9 milljarða „framlag til kerfisbreytinga“ verði varið til að bæta kjör öryrkja. Hvernig sem á málið er litið er þó ljóst að fullyrðing forsætisráðherra um níu milljarða króna framlög til að bæta kjör öryrkja stenst enga skoðun.

Stór fullyrðing

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir á Alþingi 26. nóvember:

„Háttvirtur þingmaður nefnir hér sérstaklega stöðu öryrkja. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins. Það er þess vegna sem sú ríkisstjórn sem nú situr hefur aukið framlög. Ef fjárlögin verða að lögum hér eins og þau líta út nú eftir 2. umr. hafa framlög til þessa hóps aukist um 9 milljarða í tvennum fjárlögum sem lögð hafa verið fram af þessari ríkisstjórn. Það skiptir verulegu máli. Það er veruleg aukning til viðkvæmasta hóps samfélagsins.“

Öryrkjabandalag Íslands kannaðist hvorki við alla þessa milljarða sem forsætisráðherra sagði að hefðu farið í kjarabætur til örorkulífeyrisþega, og það gerðu öryrkjar úti í samfélaginu ekki heldur. Enda fundust ekki þessar ríflegu kjarabætur, þrátt fyrir mikla leit ÖBÍ.

Ekki í hendi

Það varð því úr að Öryrkjabandalagið sendi fyrirspurnir til þriggja ráðuneyta, forsætis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, og félags- og jafnréttismálaráðuneytisins. Það var svo í upphafi vikunnar sem forsætisráðuneytið svaraði, fyrir hönd allra ráðuneytanna þriggja. Svarið er skýrt: Það hafa engir níu milljarðar verið settir í kjarabætur til örorkulífeyrisþega af núverandi ríkisstjórn.

Ágúst Geir Ágústsson, skrifstofustjóri á skrifstofu yfirstjórnar í forsætisráðuneytinu, skrifar undir svar forsætisráðuneytisins til Öryrkjabandalags Íslands. Þar segir:

„Af þessum rúmlega 9 milljörðum fara um 37% eða 3,3 milljarðar í hreinar viðbætur til að bæta kjör öryrkja. Það eru annars vegar 436 milljónir á þessu ári sem fóru í viðbótarbótahækkun (2,4% umfram 4,7% hækkun) til að hækka bætur þeirra öryrkja sem halda einir heimili í 300 þúsund krónur. Hins vegar eru það 2,9 milljarðar árið 2019 í fyrirhugaðar kerfisbreytingar til að bæta kjör örorkulífeyrisþega.“

 Í stuttu máli. Samkvæmt forsætisráðuneytinu hefur 436 milljörðum króna verið varið til að bæta kjör örorkulífeyrisþega í ár. Til stendur að verja 2,9 milljörðum til þess á næsta ári.

ÖBÍ bendir á að hækkanir vegna verðlags og það sem kallað er framlag vegna „breytinga á almannatryggingakerfi“ kann að fela í sér kjaraleiðréttingu. Hún er hins vegar ekki í hendi. Langt í frá, enda er öryrkjum enn gert að bíða, í þetta sinn eftir því að tilbúnar verði útlínur að nýju kerfi almannatrygginga. Rétt er einnig að benda á að stjórnvöld höfðu ítrekað lofað fjórum milljörðum króna til þess, jafnt í fjármálaáætlun sem því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í haust. 

Stenst ekki skoðun

Ágúst Geir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, bendir sömuleiðis á í svarinu, að aftur á móti hafi níu milljörðum króna verið varið „til málaflokks örorkulífeyrisþega“. En eins og Öryrkjabandalagið hafði áður komist að, eru þeir fjármunir að meira eða minna leyti bundin útgjöld sem skila sér ekki til örorkulífeyrisþega í formi kjarabóta. 

Í öllu falli er ljóst að þessi fullyrðing forsætisráðherra um níu milljarða „aukning[u] til viðkvæmasta hóps samfélagsins“ stenst ekki skoðun. Við vissum þetta reyndar og höfum nú staðfestingu frá þremur ráðuneytum ríkisstjórnarinnar, setta fram í nafni forsætisráðuneytisins. Nú stendur yfir þriðja umræða um fjárlög næsta árs. Þingmenn – og forsætisráðherra – hafa því enn tækifæri til þess að setja innihald í fullyrðingu forsætisráðherrans.