Skip to main content
AlmannatryggingarDómsmálFréttTR

Íslenska ríkinu ber að leiðrétta skerðingar – 12 ára baráttu vonandi lokið

By 18. desember 2023No Comments

Fimmtudaginn 14. desember felldi Héraðsdómur Reykjavíkur dóm, þess efnis að Tryggingastofnun ríkisins (TR) beri að leiðrétta óheimilar skerðingar á greiðslum til örorkulífeyristaka aftur til 1. janúar 2012.

Hin ólögmæta skerðing TR laut að bótaflokki sem kallast „sérstök uppbót til framfærslu“ og er ætlað að tryggja viðkomandi lífeyristaka lágmarksfjárhæð til þess að hann geti framfleytt sér. Í lagaákvæðinu sem mælir fyrir um þessi réttindi kemur skýrt fram að uppbótin greiðist aðeins þeim lífeyristökum sem sýnt þykir geti ekki framfleytt sér án uppbótarinnar. Dómurinn slær því þannig föstu að í fjölmörg ár hafi hinir verst settu örorku- og endurhæfingarlífeyristakar ekki fengið þá lágmarksfjárhæð sem þeim var nauðsynleg.

Dómsmálið sem um ræðir er nokkurs konar framhald af öðru dómsmáli sem ÖBÍ vann í Hæstarétti í fyrra, en samkvæmt þeim dómi var óheimilt að skerða sérstöku framfærsluuppbótina vegna búsetu í öðru landi. Í kjölfar Hæstaréttardómsins krafðist ÖBÍ þess að TR og íslenska ríkið myndu leiðrétta hinar ólöglegu skerðingar a.m.k. 10 ár aftur í tímann. Íslenska ríkið ákvað aftur á móti að leiðrétta einungis 4 ár aftur í tímann, þ.e. aftur til 2018, þrátt fyrir að óumdeilt sé að hinar ólögmætu skerðingar hafi staðið yfir frá árinu 2010. Íslenska ríkið ætlaði þannig einungis að leiðrétta 1/3 hluta af lögbrotum sínum, þ.e. 4 ár af 12 ára tímabili ólögmætra skerðinga.

ÖBÍ neyddist því til að fara í annað dómsmál til að knýja íslenska ríkið til þess að leiðrétta lögbrot sín á lengra tímabili. Með dómi héraðsdóms var eins og áður segir staðfest að TR og íslenska ríkinu beri að leiðrétta brot sín aftur til 2012, þ.e. rúmlega sex árum lengur en íslenska ríkið ætlaði sér og alls í 10 ár (2012-2022).

Málarekstur fyrir dómstólum vegna hinna ólögmætu skerðinga hefur nú staðið yfir í á áttunda ár (frá 2016). ÖBÍ neitar að trúa því að ríkið muni draga það enn lengur að leiðrétta ólögmætar skerðingar og láti fólk bíða í fleiri ár eftir lágmarksréttindum sínum. Eins og áður segir er um að ræða hóp fólks sem hvað allra minnst hefur milli handanna, hóp sem reiðir sig á sérstaka uppbót til framfærslu, en hefur mátt þola ólögmætar skerðingar árum saman.

Eftir dóm Hæstaréttar í fyrra liggur óumdeilanlega fyrir að skerðingarnar voru ólögmætar og að sama skapi er óumdeilt að skerðingarnar hafa staðið yfir síðan 2010. Nú verður íslenska ríkið að sýna ábyrgð og greiða framfærsluuppbót sem vangreidd var frá 2012. Örorku- og endurhæfingarlífeyristakar eiga það skilið að ríkið komi fram af virðingu og leiðrétti ólögmætar skerðingar að fullu, í stað þess að eyða fleiri árum fyrir dómstólum í þeim eina tilgangi að komast undan því að bæta fyrir lögbrot sín gagnvart örorkulífeyristökum.

Skýrslur undanfarinna vikna um stöðu fatlaðs fólks, þ.á.m. örorku- og endurhæfingarlífeyristaka, hafa varpað ljósi á óviðunandi stöðu þess sem fer sífellt versnandi. Hversu lengi má vont versna? Nú er mál að linni.

Dómurinn er í heild sinni hér: Dómur (heradsdomstolar.is)