Skip to main content
Frétt

Jákvæð umræða í kjölfar afhendingar undirskriftalista ÖBÍ til stjórnvalda

By 13. nóvember 2015No Comments
Góðar móttökur alþingismanna við gjöf ÖBÍ og jákvæðar umræður á Alþingi í kjölfarið. 

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hefur barist fyrir því í mörg ár að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) verði fullgiltur á Íslandi. Samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 2007 og var Ísland ein af fyrstu þjóðum heims til þess, en síðan þá hefur lítið gerst. Staðan er sú að aðildarríkin eru orðin 160 og er Ísland ekki þar á meðal. Ísland er eitt af aðeins fjórum Evrópuþjóðum sem hafa ekki fullgilt þennan mikilvæga mannréttindasáttmála sem markar tímamót í allri mannréttinda- og frelsisbaráttu fatlaðs fólks.

17.000 undirskriftir afhentar

ÖBÍ hefur undanfarna mánuði staðið fyrir herferð í formi undirskriftarsöfnunar þar sem skorað er á stjórnvöld að fullgilda SRFF á haustþingi 2015. Undirskriftasöfnuninni er nú lokið og afhenti Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, um 17.000 undirskriftir 11. nóvember. Einnig færði ÖBÍ hverjum og einum þingmanni gjöf sem var origamifugl í krukku sem flytur óskir fatlaðs fólks. Alþingismenn tóku vel á móti gjöfinni og tóku sumir þeirra til máls í pontu þennan sama dag og töluðu um mikilvægi þess að fullgilda samninginn. 

Jákvæð umræða í þingsal

Meðal þeirra sem tóku til máls var Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, sem lýsti yfir ánægju sinni með gjöf ÖBÍ og hvatti þingmenn, bæði meirihluta og minnihluta, til að sýna að þeir gætu sameinast um að fullgilda samninginn. Kristján ásamt tólf öðrum þingmönnum hefur flutt þingsályktunartillögu, sem bíður umræðu, um að  Alþingi álykti að ríkisstjórnin skuli fullgilda samninginn. Hann endaði á þessum orðum: „Leyfum fuglinum sem er í krukkunni að fljúga og sýnum þannig hug okkar í verki.“

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins tók undir með Kristjáni og sagði: „Ég vil koma hér á framfæri þökkum fyrir þá táknrænu hvatningu sem við fengum og það er ekki eftir neinu að bíða. Við eigum að fullgilda samninginn og lögfesta og láta hann um leið verða okkur verkfæri og leiðarljós.“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tók sína krukku með í pontu og mælti eftirfarandi orð: „Það sem við þingmenn þurfum hins vegar að hafa í huga, sem og framkvæmdavaldið, er að það er ekki nóg að setja lög eða innleiða samninginn. Við þurfum að tileinka okkur hugmyndafræðina þegar kemur að setningu laga almennt … Ég held að við þurfum að hugsa vel út fyrir rammann og hugleiða það að tileinka okkur í verki en ekki bara í orði.“ 

Frumvarp lagt fyrir Alþingi og samþykkt samhljóða í annarri umræðu

Þann 11. nvóvember var tekið fyrir frumvarp á Alþingi um að hugtakanotkun í löggjöf verði uppfærð með hliðsjón af hugtakanotkun í nýrri íslenskri þýðingu SRFF. Frumvarpið var samþykkt með mjög miklum meirihluta í atkvæðagreiðslu. Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar sagði í ræðustóli að hann fagnaði þessu frumvarpi og atkvæðagreiðslu um það og sagði það vera „lítið hænuskref“ og mikilvægt en það besta sem þingmenn gætu gert væri að fullgilda samninginn og lögfesta. Einnig benti hann á annað frumvarp til laga sem liggur inni hjá þinginu og hefur ekki verið mælt fyrir en  gengur út á að tryggja jafnrétti og bann við mismunun á grundvelli fötlunar á sviði stjórnsýslunnar, inna lífeyrissjóðakerfisins, í heilbrigðismálum (réttindum sjúklinga) og til að tryggja vernd sem aðrir hópar njóta samkvæmt almennum hegningarlögum. 

Birgitta Jónsdóttir kapteinn Pírata sagðist fagna því að tekin væru „hænuskref“ en lagði til að tekin yrðu „tröllaskref“ í þessum málaflokki.   

ÖBÍ fagnar þessum jákvæðu móttökum og góðu umræðum á Alþingi og bindur miklar vonir við að samningurinn verði fullgiltur nú á haustþingi.