Skip to main content
Frétt

Kjarabætur fyrir örorkulífeyrisþega

By 31. mars 2017No Comments

Öryrkjabandalag Íslands skorar á Þorstein Víglundsson, félagsmála- og jafnréttisráðherra, að hefja þegar aðgerðir til að tryggja örorkulífeyrisþegum umtalsverðar og löngu tímabærar kjarabætur. Bandalagið tekur undir ummæli Þorsteins í Kastljósi fimmtudagskvöldið 30. mars um að verulegt ofmat hafi verið á umfangi bótasvika á Íslandi í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2013.

Þorsteinn sagði að vinnan í ráðuneytinu miðaðist ekki við að um milljaðra bótasvik væri að ræða á Íslandi.

„Ég held að það sé alveg ljóst að þarna var um verulegt ofmat að ræða og rímar ekki vel við þær tölur sem við erum bara að sjá út úr gögnum Tryggingastofnunar,“ sagði Þorsteinn.

Í skýrslunni var byggt á könnun danska hugbúnaðar- og ráðgjafarfyrirtækisins KMD um mat fólks á umfangi bótasvika þar í landi. Út frá því voru leiddar að því líkur að 3,4 milljarðar króna væru sviknir út úr kerfinu hér á landi. Á þeim grundvelli var lögum um almannatryggingar breytt þannig að Trygginstastofnun fengi mun víðtækari heimildir til eftirlits en áður.

Þorsteinn sagði einnig að í öllum bótakerfum væri alltaf hætta á einhverri misnotkun og mikilvægt að stofnanir sem hefðu umsjón með þeim hefðu öflugt og skilvirkt eftirlit, þá ekki síst til að grípa það sem væri lang umfangsmest sem væru rangt greiddar bætur þar sem bæti gæti hallað á lífeyrisþega og kerfið. Lágmarka þyrfti hættu á bótasvikum en ekki síst á mistökum.

ÖBÍ tekur undir mikilvægi þess að almennt eftirlit sé með sviðum þjóðlífsins, þar á meðal með fjármálastofnunum, skattkerfinu, menntakerfinu og einnig með þjónustu við fatlað fólk. Mikilvægt sé þó ætíð að gæta persónuverndar, virða einkalíf fólks og sjálfsákvörðunarrétt.

Eygló Harðardóttir, sem var félagsmálaráðherra þegar almannatryggingalögunum var breytt, sagði í þessum sama Kastljósþætti að það væru ákveðin vonbrigði að eftirlitsstofnanir hafi ekki vandað jafn mikið til verka og þær hefðu getað.

Eygló var ítrekað spurð hvort mistök hefðu verið gerð í málinu en svaraði því ekki.