
ÖBÍ / Ruth Ásgeirsdóttir
Fatlaðar konur þurfa að vera í forystuhlutverkum þegar kemur að öryggis- og varnarmálum til að tryggja að tillit sé tekið til sjónarmiða þeirra. Þetta var á meðal þess sem var til umræðu á fundinum Konur, friður og öryggi í breyttum heimi, sem UN Women á Íslandi og ÖBÍ réttindasamtök stóðu fyrir í Mannréttindahúsinu í dag, í samstarfi við sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi.
Fullt hús var á fundinum og dagskráin þétt skipuð. Viðburðurinn fór fram á ensku og var haldinn í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna sem haldinn verður á laugardag, 8. mars. Munu UN Women á Íslandi þá standa fyrir viðburði í Sjálfstæðissalnum við Austurvöll kl. 15.
Jafnréttismál í forgangi
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra setti fundinn og fjallaði meðal annars um stefnu ríkisstjórnarinnar í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. „Ég mun sjá til þess að jafnrétti verði forgangsmál í mínu ráðuneyti. Ofbeldi gegn konum og stúlkum er því miður allt of algengt og við munum berjast gegn því,“ sagði Þorbjörg Sigríður.
Ráðherra sagði að auki að unnið sé eftir framkvæmdaáætlun sem snúist meðal annars um aukna þátttöku kvenna hvað varðar friðarumræður og öryggismál. Öryggi kvenna þurfi að vera tryggt þegar kemur að ófriði.
„Ísland hefur nýlega tekið sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og þar ætlum við okkur að vera málsvarar jafnréttis og friðar. Við munum vera málsvarar kvenna og stúlkna í öllum þeirra margbreytileika.“
Fjölbreyttar pallborðsumræður
Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, fór með fundarstjórn og stýrði pallborðsumræðum þar sem fjórir góðir gestir fengu orðið. Sagði Stella ekki hægt að bíða lengur með að setja þessi málefni, konur, frið og öryggi, á dagskrá. „Það þarf að sjá til þess að konur taki þátt í friðarviðræðum og öryggisáætlunum, því það þarf að breyta ríkjandi hugarfari og konur þekkja best til eigin mála,“ sagði Stella.
Eftirfarandi sátu í pallborði og héldu hver sitt örerindið:
– Clara Ganslandt, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi
– Jónas G. Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins
– Olena Suslova, stofnandi Women’s Information Consultative Center í Úkraínu
– Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri
Clara Ganslandt hélt fyrst erindi og lagði meðal annars áherslu á að friðarumræður þurfi að endurspegla samfélagið og að til að tryggja langtímafrið þurfi konur að hafa aðkomu að ferlinu. Konur þurfi að hafa aðgang að þjálfun og fræðslu á sviði öryggismála og friðargæslusveitir þurfi að vera inngildandi og á jafnréttisgrundvelli.
Hún ræddi einnig vinnu ESB við innleiðingu ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi, sem snýr að því að konur þurfi að vera í forystuhlutverki við ákvarðanatöku um réttindi kvenna og stúlkna og einnig hvað við kemur öryggis- og varnarmálum. „Fjöldi kvenna sem býr við óöryggi fer vaxandi, eða um 35% allra. Konur eru oft fjarverandi þegar kemur friðarviðræðum eða áætlanagerðum og því þurfum við að breyta ef við ætlum að ná árangri.“
Því næst vakti Jónas máls á því að málefni fundarins, konur, öryggi og friður, hafi aldrei verið eins mikilvægt og í dag enda eigi sér nú miklar sviptingar sér stað í málaflokknum. „Það er því mikilvægt að konur séu til staðar á öllu sviðum. Þannig erum við líklegri til að finna betri lausnir.“
Aðspurður um hlutverk karla í þessum umræðum sagði Jónas mikilvægt að hafa líta ekki á málaflokkinn sem einkamál kvenna. „Það er mjög mikilvægt að karlar í leiðtogastöðum tali um þessi mál.“
Sigríður Björk ríkislögreglustjóri fór svo meðal annars yfir hlutverk lögreglunnar sem þjónustustofnun og sagði að huga þurfi að því að enginn sé skilinn eftir. Rifjaði hún upp dæmi því til stuðnings, um heimsóknir lögreglunnar til fatlaðra kvenna á meðan heimsfaraldurinn reið yfir þar sem lögreglunni var tjáð að hún byggi ekki yfir færni og þekkingu til að aðstoða fatlaðar konur. Þetta hafi skipt verulegu máli og hafi leitt til endurskoðunar.
Olena Suslova talaði beint frá Úkraínu í gegnum fjarfundarbúnað og byrjaði á að þakka Íslandi fyrir stuðning við Úkraínu vegna innrásar Rússlands. Ræddi hún svo meðal annars tilurð samtaka sinna, Women’s Information Consultative Center:
„Það skiptir miklu máli að huga að vernd allra og við hugsum þar sérstaklega um jaðarsetta hópa og eigum í góðu samstarfi við stjórnvöld, félagasamtök og stofnanir. Hvað gerum við? Við sinnum til dæmis mikilli fræðslu um kynbundið ofbeldi og áreiti og reynum að vera afl til góðs.“
Þá vakti hún máls á því að það sé mikilvægt að veita þeim sem hafa lent á vígvellinum aðstoð. „Það þurfa að hugsa bæði um þá sem eru í orrustu og þá sem eru heima fyrir. Ég hugsaði með mér, hvað kennir sagan okkur? Við þurfum að átta okkur á því að við getum ekki breytt fortíðinni en við getum dregið úr neikvæðum eftirköstum þeirrar þjáningar sem fólk hefur upplifað.“
Fjarlægjum hindranir
Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, flutti svo lokaávarp fundarins þar sem hún sagði að fatlaðar konur og stúlkur standi frammi fyrir margþættri mismunun en séu ekki í eðli sínu berskjaldaðar. Hins vegar auki ýmsir þættir, til að mynda ófullnægjandi löggjöf, skortur á tækifærum og samfélagsleg viðhorf, jaðarsetningu þeirra.
„Fjöldi ríkja á erfitt með að setja fram áþreifanlega stefnu, kerfi og þjónustu byggða á skuldbindingum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fatlað fólk um allan heim verður fyrir auknum neikvæðum áhrifum í mannúðarkreppum. Fatlaðar konur verða fyrir meiri áhrifum af átökum og standa frammi fyrir hindrunum fyrir þátttöku í friðarferlinu,“ sagði Alma.
Lausnin sé að fjarlægja hindranir, tryggja aðgengi að friðarferlum og að skipa fatlaðar konur í forystuhlutverk.