Skip to main content
Frétt

Kostnaður sjúklinga greiddur af öðrum sjúklingum

By 29. apríl 2016júní 8th, 2023No Comments

Í nýju greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisráðherra lagði fram á dögunum er gert ráð fyrir að kostnaður þeirra 15 prósent sjúklinga sem nota þjónustuna mest muni lækka en á móti kemur að kostnaðurinn leggst í staðinn á hin 85 prósentin. Ríkið mun því ekki leggja nýju kerfi til aukið fjármagn heldur flytja kostnað milli sjúklingahópa. Aldraðir og öryrkjar sem nota heilbrigðisþjónustuna lítið munu eftir breytinguna borga hálfum milljarði meira fyrir þjónustuna.

Kostnaður við að bjóða heilbrigðisþjónustu sem lögin fjalla um gjaldfría er um 6,5 milljarðar kr.

Þetta kom fram á málþingi Öryrkjabandalags Íslands um greiðsluþátttökukerfið á Hilton Nordica þriðjudaginn 26. apríl 2016.

Heilbrigðisþjónustan enn of dýr miðað við tillögur ráðherra

Ellen Calmon formaður ÖBÍ gagnrýndi að ekki væri gert ráð fyrir auknu fjármagni hins opinbera með tilkomu nýja kerfisins og ennþá sé ekki öll heilbrigðisþjónusta inni í greiðsluþátttökukerfunum.  Hún sagði að Öryrkjabandalagið hefði ekki fengið að koma að gerð frumvarpsins og ekkert samráð hafi verið við bandalagið um útfærslu á kerfinu.

ÖBÍ vill eitt greiðsluþátttökukerfi

„Látum ekki sjúklinga borga kostnað annarra sjúklinga,“ sagði Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir, formaður málefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál, en hún kynnti nýja skýrslu bandalagsins um heilbrigðisþátttöku í heilbrigðisþjónustu á málþinginu.  Hún sagði að mikilvægt sé að hafa eitt greiðsluþátttökukerfi fyrir allan heilbrigðiskostnað, því heilbrigðiskerfið í dag sé flókið og ógegnsætt. Nauðsynlegt sé að gerð verði fagleg úttekt á heildarkostnaði mismunandi hópa vegna heilbrigðisþjónustu, enda sé ljóst að margir beri kostnað sem fari langt yfir 150.000 kr. á ári þegar allt er tekið með í reikninginn, enda leggst margvíslegur aukakostnaður á sjúklinga og ýmis heilbrigðiskostnaður sé ekki niðurgreiddur af ríkinu.

Kerfið einfaldað

„Tryggt verður að mánaðarlegar greiðslur fólks fari aldrei yfir tiltekið hámark og sett verði þak á árleg heildarútgjöld fólks fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem fellur undir nýja greiðsluþátttökukerfið,“ sagði Margrét Björk Svavarsdóttir sérfræðingur hjá velferðarráðuneytinu. Mismunandi kerfi verði sameinuð í eitt einfaldara kerfi sem myndi auðvelda fólki að glöggva sig á kostnaði sínum vegna heilbrigðisþjónustu og hámarksgreiðslur hjá öldruðum, öryrkjum og börnum verði lægri en hjá öðrum. Undir nýja kerfið fellur þjónusta heilsugæslu, sjúkrahúsa, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna, rannsóknir og geisla- og myndgreiningar.

Heimilin borga sífellt meira í heilbrigðiskerfinu

Aukin heilbrigðisútgjöld hafa lagst með fullum þunga á heimilin í landinu að sögn Gunnars Alexanders Ólafssonar, hagfræðings. Hann sagði að á tuttugu ára tímabili, frá 1984 – 2014 hefðu heilbrigðisútgjöld heimilanna aukist um 275% á föstu verðlagi. Á sama tíma hefðu heilbrigðisútgjöld hins opinbera hækkað um 97%. Kostnaðurinn við heilbrigðiskerfið hefur því færst í auknum mæli frá ríkinu til heimilanna.

Síðustu tíu árin hefur það færst í vöxt að fólk neiti sér um heilbrigðisþjónustu. Það á ekki síst við um kostnaðarsamar meðferðir eins og sálfræði- og tannlæknaþjónustu, sem ríkið tekur ekki þátt í og fellur ekki undir nýja greiðsluþátttökukerfið. Nú er svo komið að um þriðjungur landsmanna og helmingur öryrkja fresta læknisheimsóknum vegna kostnaðar.

Á málþinginu var kallað eftir frekari breytingum á heilbrigðiskerfinu til að minnka kostnað sjúklinga. Ferðakostnaður er að sliga marga en ríkið greiðir aðeins niður tvær ferðir sjúklings á ári að hluta til en allar ferðir þar fyrir utan þurfa sjúklingar að greiða að fullu, auk gistingar. Margir þurfa að sækja læknisþjónustu erlendis sem ekki er í boði hér á landi og ekki er gert ráð fyrir ferðakostnaði vegna maka.

Skýrsla ÖBÍ um greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu

Öryrkjabandalag Íslands ákvað að setja fram eigin tillögur um greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu sem birtast í skýrslunni „Greiðsluþátttaka í heilbrigðisþjónustu“. Tilgangur skýrslunnar er að hafa áhrif á útfærslu greiðsluþátttökukerfisins sem stendur til að taki gildi sumarið 2016. Skýrslan er unnin af Gunnari Alexander Ólafssyni og málefnahóp ÖBÍ um heilbrigðismál (útg. apríl 2016).