Skip to main content
FréttKjaramál

Langþráðum áfanga náð með hækkun frítekjumarks

By 14. desember 2022No Comments

ÖBÍ réttindasamtök fagna því að Alþingi samþykkti í dag að hækka frítekjumark örorku- og endurhæfingarlífeyristaka vegna atvinnutekna úr tæpum 110.000 krónum og í 200.000 krónur á mánuði, eða 2,4 milljónir á ári. Langþráðum áfanga og miklu réttlætismáli er þar með náð.

Um leið hvetur bandalagið ráðherra og stjórnvöld áfram til góðra verka og til þess að vinna hratt og ákveðið að frekari úrbótum á kjörum fatlaðs fólks.

Þessi löngu tímabæra hækkun frítekjumarksins er að mati ÖBÍ mikilvægur hluti af heildarendurskoðun á örorkulífeyriskerfinu.

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu geta einstaklingar með misháar tekjur á milli mánaða fullnýtt frítekjumarkið, sem er ekki bundið við 200.000 krónur á mánuði. Það er því hægt að nýta allt frítekjumarkið þótt tekjur taki miklum breytingum. Hækkunin tekur gildi 1. janúar 2023.