Skip to main content
AlmannatryggingarFréttKjaramál

Lífeyrir almannatrygginga hækkar um ríflega 10.500 frá og með 1. júní

By 6. maí 2022ágúst 31st, 2022No Comments
Þau ánægjulegu tíðindi hafa borist úr Stjórnarráðinu að ríkisstjórnin hefur samþykkt að hækka greiðslur almannatrygginga um 3% á alla greiðsluflokka, og húsnæðisbætur um 10% ásamt því að tekjuviðmið húsnæðisbóta hækka samhliða.

Þetta þýðir að að jafnaði hækkar lífeyrir almannatrygginga um rétt rúmar 10.500 krónur. Breytingin tekur gildi og verður greitt samkvæmt henni frá og með 1. júní. Þessi hækkun er til að draga úr áhrifum verðbólgu á þennan hóp.

Tillaga þess efnis frá forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ segir þessar hækkanir nú á miðju ári afar ánægjulegar, og í samræmi við þá kröfu sem gerð var 1. maí, og komið var á framfæri við félags- og vinnumarkaðsráðherra. Framundan er vinna við heildar endurskoðun almannatrygginga, en út af borðinu stendur enn að áfangasetja þá vinnu við að loka því tekjubili sem er milli öryrkja og lægstu taxtalauna í landinu. Þetta hækkar almannatryggingar um álíka fjárhæð og hagvaxtaraukinn færir launafólki, en langtímamarkmiðið er að sjálfsögðu að brúa þetta bil. Stóra pólítiska spurningin sem bíður, er hverjar grunnfjárhæðir lífeyris almannatrygginga eiga að vera. Vonandi komast aðilar að sanngjarnri niðurstöðu um þá stóru spurningu.

Horft verður til sértækra aðgerða með hækkun bóta almannatrygginga, sérstökum barnabótaauka til þeirra sem eiga rétt á tekjutengdum barnabótum og hækkun húsnæðisbóta.

  • Bætur almannatrygginga hækka um 3% frá 1. júní.
  • Húsnæðisbætur hækka um 10% frá 1. júní.
  • Greiddur verður sérstakur barnabótaauki til þeirra sem fá tekjutengdar barnabætur að fjárhæð 20.000 kr. með hverju barni. Frumvarp þess efnis verður lagt fram í mánuðinum.

Verðbólga mældist 7,2% á ársgrundvelli í apríl sl. og hefur Seðlabankinn brugðist við með hækkun vaxta. Þótt fjárhagsstaða heimila sé almennt sterk og kaupmáttur sé enn að aukast eru heimili í ólíkri stöðu til að takast á við vaxta- og verðlagshækkanir. Þess vegna er sérstaklega horft til fyrrnefndra hópa í mótvægisaðgerðunum eftir ítarlega greiningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Lífeyrir almannatrygginga:

Lífeyrir ellilífeyrisþega hækkuðu um 4,6% um síðustu áramót í samræmi við forsendur fjárlaga yfirstandandi árs og lífeyrir örorkulífeyrisþega um 5,6%. Í ljósi verðlagsþróunar verður lífeyrir nú hækkaður um 3% frá 1. júní og hækka framfærsluviðmið örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega vegna sérstakrar uppbótar einnig um 3% og nýtist því hækkunin mest þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Kostnaður við þessa hækkun bóta almannatrygginga er áætlaður 3 til 3,5 ma.kr. á árinu og 5 til 5,5 ma.kr. á ársgrundvelli. Varanleg útgjaldaaukning vegna hækkunar bóta almannatrygginga á árinu nemur því hátt í 14 ma.kr.  

Húsnæðisstuðningur:

Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta hækka um 10% frá 1. júní og hækka frítekjumörk húsnæðisbóta um 3% til samræmis við hækkun bóta almannatrygginga. Kostnaður við hækkunina nemur um 600 m.kr. á yfirstandandi ári og um 1 ma.kr. á ársgrundvelli. Samkvæmt mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er tæplega helmingur heimila á leigumarkaði í húsnæðisbótakerfinu. Áætlað er að a.m.k. 70% þeirra séu með vísitölutengda leigusamninga.

Barnabætur:

Greiddur verður út sérstakur barnabótaauki að fjárhæð 20.000 kr. með hverju barni í þeim tilvikum þar sem ákvarðaðar eru tekjutengdar barnabætur. Stefnt er að því að hann verði greiddur út í lok júní en kostnaður er áætlaður um 1,1 ma.kr. Endurskoðun á barnabótakerfinu stendur yfir með það að markmiði að sníða af ýmsa vankanta kerfisins þannig að meginmarkmið kerfisins náist enn betur, þ.e. að draga úr fátækt barna og styðja foreldra, sérstaklega í tekjulægri hópum.

Í frétt á vef Stjórnarráðsins kemur fram að ríkisstjórnin telji brýnt að koma til móts við þann hóp sem hækkandi verðbólga mun bitna verst á og það strax.